Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:52:25 (4297)

2000-02-14 17:52:25# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs öðru sinni í þessari umræðu vegna þess að ég er að reyna að átta mig á hæstv. umhvrh. og því sem hún hefur haft fram að færa. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að hæstv. ríkisstjórn muni slá á framrétta sáttarhönd Samfylkingarinnar í þessum málum, mál sem hefur stuðning frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, því að ég vona að hæstv. umhvrh. geri sér grein fyrir því að hér er verið að færa hæstv. ríkisstjórn á silfurfati mjög einfalda og góða lausn á virkjanavandræðum hæstv. ríkisstjórnar.

Hæstv. ráðherra tók þannig til orða að hún væri sammála meginhugsuninni í umræddu frv. Það gladdi mig að heyra það, en því lengur sem hæstv. ráðherra talaði því hryggari varð ég í hjarta mínu því að hæstv. ráðherra virðist treysta því að einhvers konar sólarlagsákvæði sé í nýju frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum --- ekki á umhverfisráðherrum þó að kannski ætti að leggja slíkt frv. fram, við verðum að íhuga það mál. En grínlaust, herra forseti, þá hefur verið beðið eftir þessu frv. til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum um allnokkurt skeið, í tæpt ár ef mig misminnir ekki, og öllum er ljóst að sú endurskoðun hefur dregist úr hömlu. Í ljósi reynslu minnar af hæstv. ríkisstjórn leyfi ég mér ekki að treysta því að það frv. muni skila sér hér inn fljótlega og því held ég að hæstv. ráðherra ætti að íhuga það mjög gaumgæfilega að gera fyrirliggjandi frv. að sínu að öllu leyti, herra forseti.

Hér hefur einnig verið rætt nokkuð um rammaáætlunina Maður, nýting, náttúra, en komið hefur í ljós að ólíkt því sem margir héldu, m.a. sú sem hér stendur, að þessi áætlun yrði lögð fram á yfirstandandi kjörtímabili, þá upplýsir hæstv. umhvrh. að hún efist um að það takist og kannski verði það ekki fyrr en á næsta kjörtímabili og auk þess sé nokkuð óljóst hvað sé undir í rammaáætluninni, hvort allar fyrirhugaðar virkjanir, hvort heldur þær sem nú þegar hafa fengið leyfi, svokallaða virkjanaheimild, ellegar annað sem er á teikniborðum Landsvirkjunar eða annarra þeirra er munu nýta orku- og jarðvarma á komandi árum og öldum, hvort allt þetta sé undir. Mér þætti gaman að vita, herra forseti, hvort hæstv. ríkisstjórn hafi í hyggju að leggja þessa áætlun fyrir fyrir lok kjörtímabilsins svo að íslenska þjóðin geti hreinlega kosið um það í næstu alþingiskosningum, kosið um rammaáætlunina til langs tíma. Það væri lýðræðisleg og góð aðferð, herra forseti. Og fyrst hæstv. umhvrh. er svartsýn á að það takist að klára þessa vinnu á yfirstandandi kjörtímabili, þá hygg ég að skynsamlegast sé að stöðva allar framkvæmdir, leggja allt undir í rammaáætluninni og leggja það svo í mat kjósenda hvert skuli haldið í þessu máli.