Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:55:15 (4315)

2000-02-14 18:55:15# 125. lþ. 62.15 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:55]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Rétt er það að margir náttúrufræðingar hafa verið góðir íslenskumenn og hygg ég að fáir hafi lagt meira til íslenskrar tungu, kannski enginn maður, en Jónas Hallgrímsson nema ef vera skyldi Snorri Sturluson.

Það breytir ekki því að sú ákvörðun núna að leggja niður gömlu heitin er ekki í anda þeirra manna sem hv. þm. vitnaði til, Jónasar Hallgrímssonar eða Jóns Eyþórssonar. Ekki get ég á það fallist og það er satt að segja hálfskrýtin afsökun og heyrist ekki í fyrsta skipti nú í þessum þingsal að þetta sé réttlætanlegt út frá því að náttúrufræðingar fyrr á tímum hafi talað gott mál. Það er ekki hægt að hlaupa í það skjólið.