Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 15:37:46 (4340)

2000-02-15 15:37:46# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það mátti skýrt heyra á máli hv. þm. að hann er andvígur frv. Rökstuðningurinn fyrir andstöðunni var hins vegar æði óljós og sundurlaus og svo ekki sé meira sagt. Ég vil fyrst segja um ólympíska hnefaleika að eftir því sem best er vitað bannar ekkert land í heiminum, annað en Ísland, nokkra ólympíska íþróttagrein. Hnefaleikar eða ólympískir hnefaleikar eru eina ólympíska íþróttagreinin sem er bönnuð með lögum einhvers staðar í heiminum eftir því sem ég best veit. (Gripið fram í: Gott mál!)

Hvernig skyldi það nú vera, herra forseti, að þjóðþing allra þessara landa og íþróttahreyfingar landa um heim allan hafi komist að þeirri niðurstöðu að ólympískir hnefaleikar væru íþróttagrein sem eðlilegt og sjálfsagt væri að iðka í hverju landi fyrir sig? Hv. þm. kemur ekki fram með nein rök gegn þessari sameiginlegu niðurstöðu. Í öðru lagi vil ég nefna að þegar málinu var fyrst hreyft hér á Alþingi fyrir sjö árum, sem ég gerði ásamt öðrum hv. þáv. þm., Inga Birni Albertssyni, þá kynnti ég niðurstöðu sænskra lækna við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Ég hafði undir höndum mikla skýrslu þar sem rannsökuð voru áhrif á þrjá íþróttahópa, knattspyrnumenn, frjálsíþróttamenn og þá sem iðkuðu ólympíska hnefaleika. Niðurstaða skýrslunnar var sú að skaðsemin væri minnst í hópi þeirra sem iðkuðu ólympíska hnefaleika. Mest var hún í hópi þeirra sem iðkuðu knattspyrnu. Það þekkjum við líka hér á landi að slysatíðni er mest og alvarlegust hjá þeim sem stunda knattspyrnu. Ef þingmaðurinn væri sjálfum sér samkvæmur þá ætti hann að flytja hér frv. um að banna knattspyrnu.