Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 15:52:06 (4351)

2000-02-15 15:52:06# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það séu meiri rök fyrir að leyfa lögunum að standa eins og þau eru en að breyta þeim. Ég tel að það séu haldbær rök að menn verða fyrir augnáverkum og höfuðáverkum í þessari íþróttagrein umfram aðrar greinar.

Íþróttaslys eru allt annað mál og ef við finnum það út að af einhverjum ástæðum sé óeðlilegur fjöldi slysa í einhverri íþróttagrein þá er reynt að grípa til aðgerða, t.d. að spila ekki fótbolta þegar völlurinn er rennblautur, það er a.m.k. vitrænt. Á sama hátt höfum við komið á þeirri lagaskyldu að fólk sé með öryggisbelti í bíl. Af hverju var það? Jú, það var vegna slysa í umferðinni og vegna þess að fólk fékk höfuðáverka og hnykk á hálsinn. Við tökum á málunum einmitt svona, herra forseti.

Við getum ekki farið að banna rúm af því að menn deyja í rúmunum. Ég er alveg klár á því. En menn verða nú aðeins að horfa á þessa íþrótt og tíðni áverkanna á augu og höfuð.