Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 16:01:32 (4354)

2000-02-15 16:01:32# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á ræðu þessa ágæta þingmanns. Ég bendi þeim ágæta þingmanni á að menn geta spilað fótbolta og ekki komið við fótboltann heilan hálfleik þannig að svona mál eru algjörlega afstæð.

Hv. þm. ræddi mikið um slys í þessum hnefaleikum en hins vegar ræddi hún ekkert um slys í öðrum íþróttum eins og karate og júdó. Þar eiga ekki að vera snertingar en þó verða þar alvarleg slys. Við getum tekið dæmi um sjálfsvarnaríþrótt eins og skylmingar sem er ólympíugrein. Þar eru menn varðir í bak og fyrir en samt hefur orðið dauðaslys á Ólympíuleikum í skylmingum. Auðvitað eiga slys ekki að koma fyrir. Hv. þm. Ásta Möller rakti hve slys væru orðin fátíð í ólympískum hnefaleikum. Ég segi: Burt með forsjárhyggjuna og leyfum ólympíska hnefaleika og leyfum það frelsi sem einstaklingurinn þarf hér á landi. Það er ekki verið að kalla yfir okkur einhverjar stórhættur. Búið er að sýna fram á þetta hér með rökum úr læknisfræðinni, úr skýrslum og öðru, og við eigum ekki að þrátta mikið um þetta. Mér finnst þetta vera sjálfsagt mál og okkur til framdráttar.