Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 16:01:38 (4355)

2000-02-15 16:01:38# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú samt eini læknirinn í þessum sal og það er skrýtið ef ég er þá sú eina sem hef rangt fyrir mér um þessar greinar kollega minna héðan og þaðan úr heiminum. En það má vel vera, ég er ekkert óskeikul. Ég held samt að ég sé að segja satt og rétt upp úr þeim rannsóknum sem ég hef kynnt mér og þær koma víða að. Ég er með greinar eftir Stewart og félaga frá Johns Hopkins háskólanum í Baltimore, ég er með grein frá Vínarborg eins og ég var að tala um áðan, ég er með breskar greinar og ég er með greinar sem gera einmitt úttekt á þeim áverkum sem ég hef margundirstrikað. Það eru höfuðáverkar og það eru áverkar á augum. Ein leið er til að hindra þessa áverka og það er að í áhugamannahnefaleikum verði á sama hátt og bannað er að kýla fyrir neðan beltisstað og kýla í kynfæri verði óheimilt að slá í andlit og höfuð. Það er bara svona einfalt. En við erum ekki komin svo langt.