Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 16:46:30 (4363)

2000-02-15 16:46:30# 125. lþ. 63.11 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[16:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich er mjög hugfanginn af gagnagrunni á heilbrigðissviði, það er okkur löngu kunnugt, og leggst hann nú eina ferðina enn í lagalegar vangaveltur til að sannfæra okkur um að Helskinki-sáttmálinn sé ekki brotinn með íslenska gagnagrunninum varðandi upplýst samþykki. Ég er honum ósammála um þetta og við höfum oft rætt þetta.

En það sem hann gerði nú í þessari ræðu er að gera lítið úr þeim ásetningi margra lækna á Íslandi að fara fram á að sjúklingar veiti upplýst samþykki til að fara inn í gagnagrunninn, segir að þetta sé ekki brot á trúnaði. Nú er það svo að margir sjúklingar líta svo á að slíkt væri brot á trúnaði og það er sannfæring margra lækna að þessi sé raunin.

Mér leikur forvitni á að vita hver afstaða hv. þm. Tómasar Inga Olrichs er til yfirlýsinga sem komið hafa frá pólitískum stjórnendum heilbrigðisstofnana um að veita læknum áminningu sem fara fram með þessum hætti. Hver er afstaða hv. þm. Tómasar Inga Olrichs til slíks framferðis?