Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:38:24 (4380)

2000-02-15 17:38:24# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni. Hér við 1. umr. málsins er mjög mikilvægt að sjónarmið hæstv. ráðherra komi rækilega fram þannig að þau skili sér inn í nefndarstarfið.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mér fannst tilsvar hæstv. ráðherra nokkuð rýrt þegar óskað var eftir nánari skýringum í andsvörum.

Ég vil taka fram að ég hef mjög miklar efasemdir um þetta Schengen-samkomulag. Ég skil mjög vel að þeir sem eru fylgjandi því að stofnað verði samevrópskt ríki vilji afnema landamæri og landamæraeftirlit innan þess. En varðandi þá sem standa þar utan og hafa ekki í hyggju að ganga inn í þetta samevrópska ríki hef ég miklar efasemdir og spyr hverjir séu kostirnir við samkomulagið og þetta nýja fyrirkomulag sem óumdeilanlega mun hafa mikinn kostnað í för með sér fyrir Íslendinga. Auk þess fylgir sá ókostur að stórlega mun draga úr eftirliti með fólki og vörum til landsins, þar með fíkniefnaeftirliti.

Ég vil einnig taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um þá sýn sem nauðsynlegt er að við gerum okkur grein fyrir að blasa muni við að fáeinum árum liðnum ef Schengen-samkomulagið verður að veruleika. Þá er það rétt sem fram kom hjá þingmanninum að fleiri en eitt hlið verða í íslenskum flughöfnum. Þar verður fólk dregið í dilka eftir þjóðerni. Annars vegar munu Evrópumenn ganga inn um hinar breiðu dyr, þeir sem koma frá löndum Evrópusambandsins eða hins Evrópska efnahagssvæðis. Um hið þrengra hlið, þar sem menn munu látnir sæta mun strangari rannsókn og skoðun fara aðrir, t.d. Bandaríkjamenn eins og fram kom í máli hv. þm. Vestur-Íslendingarnir verða að sjálfsögðu teknir til rækilegrar skoðunar í Keflavík og annars staðar þar sem þeir munu óska eftir að koma til lands okkar.

Ég auglýsi mjög rækilega eftir þeim rökum sem menn hafa fyrir því að takast á hendur þær miklu fjárhagslegu skuldbindingar sem fylgja Schengen-samkomulaginu auk vandræða sem hljóta að fylgja því að draga úr fíkniefnaeftirliti til landsins sem er fylgifiskur þessara frv.

Að lokum þetta: Það væri afskaplega fróðlegt að heyra skýringar hæstv. dómsmrh. á 10. gr. frv. og álit hæstv. ráðherra á þeirri grein. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Dómsmálaráðherra ákveður hvenær lög þessi öðlast gildi.``

Er hægt að ganga lengra í geðþóttastjórnun á Alþingi? Það finnst mér ekki.