Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:51:20 (4384)

2000-02-15 17:51:20# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:51]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að henni kæmi á óvart að hv. þingmenn sem til máls hafa tekið sýndu ákveðna tortryggni í garð þessa máls í málflutningi sínum. Ég held, virðulegi forseti, að það þurfi ekkert að koma á óvart, ég tala nú ekki um í ljósi síðasta máls sem rætt var á hinu háa Alþingi er varðaði Kúrda sem hingað kom og þá málsmeðferð sem hann fékk. Það þarf því ekki að koma á óvart þó að menn gangi til þessa leiks með ákveðna tortryggni í huga.

Hins vegar vakti kannski miklu meiri athygli í málflutningi hæstv. ráðherra svarið við þeirri spurningu hvaða reglur gilda þegar einstaklingum sem hingað koma er meinaður aðgangur að landinu, þ.e. meinuð landganga, hvaða reglur gilda í þeim tilvikum, hvaða möguleika þeir eiga á að leita réttar síns, að fá aðstoð áður en úrskurður er kveðinn upp í máli þeirra o.s.frv., þá eiginlega svaraði hæstv. ráðherra því til --- það er túlkun mín á orðum hennar --- að ég geti bara skoðað það sjálfur, þ.e. ég geti í hv. allshn. beitt mér fyrir því að þessara upplýsinga verði aflað og þær síðan bornar saman við þær hugmyndir sem menn hafa í þessu samhengi hvað sé rétt að gera.

Virðulegi forseti. Mér finnst svör af þessum toga ekki við hæfi á hinu háa Alþingi að hæstv. ráðherra leyfi sér að svara fyrirspurnum á þennan hátt.

Ég get aðeins dregið þá ályktun af því að hæstv. ráðherra hafi ekki hugmynd um hvaða reglur gilda í þessum tilvikum eða hitt að engar reglur gildi. Ég get ekki dregið aðrar ályktanir af þeim svörum, virðulegi forseti, sem ég held að sé mjög miður nema hæstv. ráðherra komi í andsvari sínu og upplýsi mig um hvaða reglur gilda í þessum tilvikum. Geri hún það ekki, virðulegi forseti, þá er ljóst að niðurstaða mín í þessu máli hlýtur að vera rétt.