Upplýsingamiðlun EFTA til væntanlegra ESB-landa

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:02:01 (4407)

2000-02-16 14:02:01# 125. lþ. 65.1 fundur 316. mál: #A upplýsingamiðlun EFTA til væntanlegra ESB-landa# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýr svör miðað við þann tíma sem hann hafði til umráða. Ég á ekki sæti í hv. utanrmn. lengur og þess vegna kom ég með fyrirspurn mína hér og ég vona að hæstv. ráðherra þyki það ekki að ófyrirsynju. Að því er varðar orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá voru þau auðvitað vanabundið ergelsi hans út í EES-samninginn, sem við kynntumst auðvitað ákaflega vel á síðustu kjörtímabilum. Ég er þeirrar skoðunar og gæti í lengra máli fært miklu sterkari rök fyrir því að samningurinn um EES eigi verulega mikinn þátt í þeirri velsæld sem hefur komið upp á síðustu árum. Ég get því miður ekki farið nánar út í það á þeim knappa tíma sem ég hef hér en væntanlega tek ég snerru um það við hv. þm. þegar við ræðum um utanríkismál síðar á þessu þingi.

Hæstv. utanrrh. taldi hér upp allmarga þætti sem hann hefur ráðist í til þess að efla þessi tvíhliða samskipti milli Íslands, aðallega þó EFTA, og væntanlegra aðildarlanda. Það skiptir ákaflega miklu máli. Hæstv. ráðherra greindi frá því í síðustu viku að hann væri þeirrar skoðunar að stækkunin ein og sér og áhrif hennar og afleiðingar gætu leitt til þess að staða samningsins mundi dvína og rýrna. Þess vegna er það ákaflega mikilvægt fyrir íslenska utanríkisverslun og íslenska velsæld að gera það sem hægt er til þess að þær afleiðingar verði sem minnstar. Ég hefði, ef hæstv. ráðherra hefur tóm til, mikinn áhuga á því að hann mundi í seinni ræðu sinni gera grein fyrir því hvort utanrrn. muni sérstaklega reyna að ná sambandi við þessi ríki og kynna þeim afstöðu okkar. Ég er alveg viss um að það hefur mikil áhrif að dreifa til þeirra 8 þús. diskettum en ég hugsa jafnvel að sérstök för sendinefndar af hálfu íslenska utanrrn. til þessara ríkja hefði jafnvel meiri áhrif heldur en 8 þús. diskettur.