Lögbinding lágmarkslauna

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:02:51 (4574)

2000-02-21 15:02:51# 125. lþ. 67.1 fundur 326#B lögbinding lágmarkslauna# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég og hv. þm. höfum áður rætt þessi mál í þinginu og ég veit að hann hefur stúderað þessi fræði vel og af mikilli athygli og spurst fyrir um þau m.a. hjá stofnunum ríkisins, Þjóðhagsstofnun og fleirum. Hv. þm. veit líka að ágreiningur er á milli okkar um það hvort þetta fyrirbæri, lögbinding lágmarkslauna, sé endilega hollt fyrir þjóðfélagið og reyndar fyrir launþega sjálfa. Um það eru mjög deildar meiningar svo ekki sé meira sagt.

Ýmsir halda því fram með tölulegum rökum að slík lögbinding lágmarkslauna sé til þess fallin að halda launum niðri og í annan stað séu þau til þess fallin að ýta þeim sem veikastir eru hverji sinni út af almenna vinnumarkaðnum o.s.frv. Um þetta eru mjög deildar meiningar. Við höfum reyndar séð í Bretlandi nú nýverið að þar hefur stjórnarandstaðan látið af andstöðu við lögbindingu lágmarkslauna en segja verður þó eins og er að lágmarkslaunabinding í Bretlandi hefur ekki út af fyrir sig verið til þess fallin að draga úr atvinnuleysi eða tryggja kjör manna.

Svo að spurningunni sé svarað beint, þá hefur ríkisstjórnin ekki tekið ákvörðun um að skipa slíka nefnd sem hv. þm. spurði um. En af tilefni orða þingmannsins er sjálfsagt að hugleiða það mál hvort það sé rétt, en ekki hefur verið tekin nein slík ákvörðun.