Landsvirkjun og rekstur fjarskiptafyrirtækja

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:29:06 (4595)

2000-02-21 15:29:06# 125. lþ. 67.1 fundur 331#B Landsvirkjun og rekstur fjarskiptafyrirtækja# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé frekar óvanalegt að spyrja ráðherra um þingmál sem eru í nefndum þar sem málin eru á vegum þingsins. Þar sem hv. þm. spyr hins vegar út í þetta mál þá skorast ég ekki undan því að svara.

Ég get svarað því að mér var ekki kunnugt um það þegar 1. umr. fór fram að þetta fyrirtæki hefði verið stofnað. Ég frétti hins vegar af því síðar. Eins og kom fram hjá hv. þm. tekur Landsvirkjun þátt í stofnun fyrirtækisins með fyrirvara um að frv. það sem nú liggur fyrir Alþingi verði að lögum. Öllum er kunnugt um að Landsvirkjun, vegna þeirra laga sem gilda í dag, getur ekki stofnað til fyrirtækjareksturs á þessu sviði án lagabreytingar.

Þetta hef ég um málið að segja á þessu stigi. Hér er númer eitt, tvö og þrjú um það að ræða að sá búnaður sem Landsvirkjun hefur komið sér upp nýtist fleiri aðilum. Þannig horfi ég á málið og á því hefur ekki orðið nein breyting.