Þjóðlendur

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 18:27:29 (4615)

2000-02-21 18:27:29# 125. lþ. 67.11 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[18:27]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Lög þessi voru sett fyrir tæpum tveimur árum til að útkljá í eitt skipti fyrir öll aldalöng deilumál um eignarráð yfir hálendissvæðum landsins. Má reyndar til sanns vegar færa að sjálfur Hæstiréttur hafi stýrt þeirri umræðu inn á vettvang Alþingis með tveimur stefnumarkandi dómum um svonefndan Landmannaafrétt.

Með lögum þessum var því eign ríkisins slegið á land og hvers konar landsréttindi og hlunnindi á svæðum sem ekki voru háð einkaeignarrétti, þ.e. hinar svonefndu þjóðlendur. Lög þessi réðu þó ekki í þessu efni til hlítar enda augljóst að ógerningur hefði verið að skera með lögum úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda og eftir atvikum önnur réttindi innan þjóðlendna. Þess vegna var með sömu lögum komið á fót sérstakri nefnd í því skyni, svonefndri óbyggðanefnd, og henni falið að leysa skipulega úr þeim álitaefnum sem uppi eru um þetta hvar sem er á landinu. Nefndin velur sjálf hvaða svæði hún tekur fyrir hverju sinni og á þannig frumkvæði að því að gangsetja málarekstur þeirra er telja til réttindi á hverju svæði um sig. Starfi nefndarinnar er jafnframt markaður ákveðinn tímarammi í lögum og er gert ráð fyrir að hún ljúki störfum á árinu 2007 og óvissu um þessi efni ljúki þar með.

Þegar ég mælti fyrir frv. því er varð að lögum lagði ég áherslu á verið væri að færa ríkinu handhöfn eignarheimilda á svæðum sem enginn hefði getað sannað eignarrétt sinn til og hulinn hefði verið móðu að því er varðaði réttindin yfir þeim. Þá lét ég svo um mælt að ekki yrði séð fyrir fram fyrir öllum þeim vandamálum sem upp kynnu að koma og að ekki yrði fyrir fram úr þeim leyst í einu lagi. Ég lagði því einnig ríka áherslu á að með samþykkt þess frv. væri tekið fyrsta skrefið á lengri leið.

Eins og að líkum lætur er óbyggðanefnd ætlað að ráða til lykta álitaefni sem hafa mikla almenna þýðingu og varða mikilvæga hagsmuni þeirra einstaklinga og lögaðila sem telja til réttinda á þeim svæðum er hún tekur til.

Enda þótt lögin um þjóðlendur geri ekki ráð fyrir að raska réttarstöðu landeigenda eða réttindum þeirra sem nýtt hafa land til þjóðlendu, t.d. sem afrétt fyrir búfénað, leggja þau ákveðnar kvaðir og kostnað á herðar þeirra að frumkvæði stjórnvalda. Landeigendur og aðrir mögulegir rétthafar verða þannig að sæta því að óbyggðanefnd taki til meðferðar landsvæði sem þeir kunna að hafa talið eign sína um langt árabil. Þeir þurfa að lýsa eignarheimildum sínum fyrir nefndinni og leggja fram gögn þeim til stuðnings. Til þess getur þurft kostnaðarsamar sérhæfðar heimildarannsóknir og lögfræðilega aðstoð sem aðilar kunna að hafa misjafna burði til að mæta þegar þeir þurfa að gæta hagsmuna sinna. Komi upp ágreiningur um einstök svæði getur jafnframt þurft að flytja mál munnlega fyrir nefndinni og undirbúa það svipað og um dómsmál væri að ræða, þar á meðal með atbeina lögmanns.

Þegar til alls þessa er litið og þess að ríkisvaldið á frumkvæði að því að taka þessi mál til meðferðar og því starfi er markaður ákveðinn tími, þykja sterk sanngirnisrök mæla með því landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum verði gert auðveldara fyrir að reka mál sín fyrir óbyggðanefnd. Í því skyni er í frumvarpi þessu gerð tillaga um tvenns konar breytingar á gildandi lögum.

[18:30]

Önnur felst í því að leggja á ríkissjóð kostnað annarra en ríkisins af hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd. Hin er breyting á málsmeðferð fyrir nefndinni til að draga úr kostnaði af henni.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því sem meginreglu að aðilar beri sjálfir kostnað af hagsmunagæslu sinni fyrir óbyggðanefnd. Frávik frá þeirri meginreglu eru gjafsóknarmöguleikar laganna og ákvæði um að unnt sé að úrskurða aðila til að bera málskostnað gagnaðila. Skilyrði til að fá gjafsókn hafa hins vegar þótt tiltölulega þröng enda sniðin eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála fyrir dómstólum. Þessi ákvæði leiða því til þess að landeigendur og aðrir mögulegir rétthafar þurfi í mörgum tilvikum að bera kostnað vegna meðferðar mála fyrir óbyggðanefnd sjálfir.

Með hliðsjón af þessu og á grundvelli þeirra röksemda ég hef þegar gert grein fyrir er í 7. gr. frv. lagt til að óbyggðanefnd verði heimilað að úrskurða málsaðilum, öðrum en ríkinu, kostnað af hagsmunagæslu fyrir nefndinni. Hér getur verið um að ræða kostnað vegna gagnaöflunar, kortavinnslu og þjónustu lögmanna og annarra sérfræðinga. Til að kostnaður við málarekstur haldist innan eðlilegra marka er það gert að skilyrði að um nauðsynlegan kostnað sé að ræða og er óbyggðanefnd falið að hafa eftirlit með því. Við mat á nauðsyn kostnaðar er nefndinni heimilað að líta til þess hvort aðilar hafi sameinast um að nýta sér aðstoð sömu lögmanna annarra sérfræðinga ef hagsmunir þeirra rekast ekki á enda þótt ekki þyki unnt að gera það að skilyrði. Við mat á fjárhæð kostnaðar er nefndinni sett sú vísiregla að endurgjald teljist sanngjarnt og eðlilegt miðað við umfang viðkomandi máls.

Þá gera gildandi lög um þjóðlendur o.fl. ráð fyrir því að óbyggðanefnd ákveði hvaða svæði hún tekur til meðferðar hverju sinni og auglýsi eftir kröfum allra þeirra sem þar eiga hagsmuna að gæta með almennri tilkynningu.

Í 4. gr. frv. er lagt til að þessari tilhögun verði breytt á þann veg að fjmrn. verði falið að eiga frumkvæði að því að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á því svæði sem nefndin ákveður að taka til meðferðar ef landeigendur og aðrir mögulegir rétthafar lýsa ekki kröfum sínum fyrr en kröfugerð ríkisins liggur fyrir.

Gildandi lögum var m.a. ætlað að tryggja ákveðið jafnræði með aðilum, bæði landeigendum og ríkinu við gerð kröfulýsinga og e.t.v. stuðla að því að meiri sátt gæti skapast um niðurstöðu nefndarinnar. Enda þótt þessi breyting hljóti að raska nokkuð þessu jafnræði og setja mál í annan farveg en lagt var upp með við undirbúning laganna standa nokkur veigamikil rök til að gera þessa breytingu. Í því efni er e.t.v. mest um vert að landeigendum verði með þessu móti ljóst hvar ríkið mun bera niður og geti hagað málatilbúnaði sínum í samræmi við það. Með því að minna þarf við að hafa vegna svæða, sem þá er ljóst að enginn ágreiningur er um, ætti það að auðvelda kröfuauglýsingar landeigenda til muna og draga þannig úr kostnaði við gerð þeirra. Þessi röksemd tengist þannig hinni meginbreytingunni er lýtur að endurgreiðslu kostnaðar af hagsmunagæslu fyrir nefndinni og miðar að því að lágmarka hann.

Aðrar breytingar sem rétt er að gera sérstaka grein fyrir, herra forseti, lúta að ákvæðum starfssviðs óbyggðanefndar annars vegar og hins vegar að skattskyldu þeirra svæða sem óbyggðanefnd úrskurðar að teljist þjóðlendur. Í 2. gr. frv. er lögð til sú viðbót við núgildandi ákvæði að formaður óbyggðanefndar skuli sinna því sem fullu starfi enda gefur auga leið að slíku starfi verður ekki sinnt á ábyrgan hátt með öðru móti. Með því að óbyggðanefnd eru falin verkefni sem áður voru í höndum dómstóla þykir jafnframt eðlilegt að kjör hans taki mið af kjörum dómstjóra enda ljóst að störf hans eru síst ábyrgðar- og umfangsminni.

Þá er í 1. gr. frv. lagt til að þjóðlendur verði undanþegnar hvers kyns sköttum og gjöldum til hins opinbera enda hefur það engar slíkur tekjur haft af þessum svæðum hingað til, hvorki ríki né sveitarfélög. Hins vegar ber að leggja áherslu á að undanþága þessi tekur einvörðungu til landsvæðanna sem slíkra en ekki til mannvirkja þar, hvort sem mannvirkin eru þar, kunna að rísa þar eða réttinda sem þeim fylgja.

Herra forseti. Enda þótt sú gagnrýni sem vart hefur orðið við upphaf meðferðar á fyrsta svæðinu, sem óbyggðanefnd hefur tekið til meðferðar, sé ekki endilega aflvaki þeirra breytinga sem ég hef mælt fyrir vænti ég þess þó að þær megi verða til þess að slá nokkuð á þær óánægjuraddir sem heyrst hafa og öðru fremur beinast að kröfugerð fjmrh. á því svæði. Undirbúningur hennar var í höndum sérstakrar vinnunefndar á vegum þess ráðuneytis sem hefur stundum verið nefnd þjóðlendunefnd í umræðunni. Einnig hefur borið við að henni hafi verið ruglað saman við óbyggðanefndina. Það er ekki alls kostar heppilegt og nauðsynlegt að óbyggðanefnd njóti sannmælis í þeim efnum. Ég tek hins vegar fram að ég get sjálfur ekki tekið efnislega afstöðu til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið.

Þær breytingar sem frv. þetta felur í sér hafa þegar verið kynntar ýmsum hagsmunaaðilum eða fulltrúum þeirra, þar á meðal Bændasamtökum Íslands og þær hafa almennt mælst vel fyrir. Ég vænti þess að svo verði einnig á hinu háa Alþingi.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.