2000-02-22 13:32:50# 125. lþ. 68.92 fundur 333#B vinna við skýrslu um úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í október sl. óskuðu þingmenn Samfylkingarinnar á þskj. 20 eftir því að viðskrh. léti endurskoða úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja sem starfa á íslenskum markaði. Skýrsla um þetta efni var áður gefin út á vegum samkeppnisyfirvalda árið 1994. Þegar þessi beiðni var til umræðu á Alþingi gat þáv. viðskrh. þess að ljóst væri að hér væri um viðamikla úttekt að ræða sem væri kostnaðarsöm og mundi taka mun lengri tíma en ráðuneytum er ætlað til slíkrar skýrslugerðar samkvæmt þingsköpum.

Ráðuneytið hefur í samvinnu við Samkeppnisstofnun gert áætlun um kostnað sem af því hlýst að vinna slíka skýrslu og má ætla að hann nemi 14--15 millj. kr. Í greinargerð sem ráðuneytinu hefur borist frá Samkeppnisstofnun vegna þessa segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ljóst er að endurskilgreina þarf verkefnið og laga að breyttum aðstæðum. Þar ber fyrst að nefna að opinberar upplýsingar sem stuðst var við eru nú á öðru og þróaðra formi sem býður upp á að skilgreina markaði í ríkara mæli út frá samkeppnissjónarmiðum.

Umfang verksins verður einnig nokkru meira nú en 1994 vegna nýrra atvinnugreina sem hefur vaxið fiskur um hrygg svo sem hugbúnaðariðnaðar og lífiðnaðar. Eðli ýmissa markaða hefur mjög breyst m.a. vegna hlutafélagavæðingar og aukins frjálsræðis. Dæmi um þetta eru fjarskiptamarkaðurinn og fjármagnsmarkaðurinn. Þá ber nauðsyn til að taka með hin mörgu eignarhaldsfélög og eignarhald lífeyrissjóða til að gefa sem réttasta mynd af stjórnunar- og eignartengslum nú.``

Ríkisstjórnin hefur fjallað um þetta mál og varð það að samkomulagi að ég mun beita mér fyrir því að sérstök fjárveiting til þessa verkefnis verði á fjárlögum næsta árs. Skýrsla sem þessi tekur um það bil eitt ár í vinnslu en eftir að henni hefur verið endanlega lokið ætti að vera mögulegt að uppfæra hana reglulega. Ég vil hins vegar taka fram (Forseti hringir.) --- hæstv. forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu --- að ég hef mikinn hug á að hraða þessu verki og mun því leita leiða til að tryggja að vinna við það geti hafist á þessu ári eftir atvikum þannig að upphafskostnaður við það verði til bráðabirgða greiddur af almennu rekstrarfé viðskrn. (Forseti hringir.) Mun það verða skoðað nánar í ráðuneytinu.