Hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:35:27 (4644)

2000-02-22 14:35:27# 125. lþ. 68.13 fundur 320. mál: #A hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi þáltill. er allrar athygli verð, einkum og sér í lagi fyrir þær upplýsingar sem fram koma í henni um flutning á magni eldsneytis svo og vegna umferðar olíuflutningavagna á Reykjanesbraut. En, herra forseti, mér þykir þáltill. bera það með sér að hv. flutningsmenn nálgist þennan vanda nokkuð sérkennilega, þ.e. að láta fara fram könnun á þeirri hættu sem skapast fyrir vatnsból vegna þessara flutninga í stað þess að koma beint að málinu eins og hv. 1. flm. Hjálmar Árnason kom inn á í ræðu sinni er hann benti á tvær hafnir í lok málflutnings síns og taldi eðlilegt að skipan mála væri þannig að þar væri eldsneyti dælt í land, t.d. í Helguvík. Hv. þm. kom aðeins inn á olíujöfnunargjaldið sem er líklega það vandamál sem við horfumst í augu við og ekki hefur neitt verið leiðrétt og er umhugsunarefni hvers vegna það er við lýði.

En það sem ég vildi gagnrýna, virðulegi forseti, er að ég skil ekki hvers vegna þeir heiðursmenn sem flytja þessa þáltill. eru að óska eftir könnun á þessu máli þegar það er haft í huga að mengun af þessari umferð er svo og svo mikil og eins og í lokaorðum hv. flm. kom fram, að það væri bara eðlilegt að taka upp flutninga beint til Helguvíkurhafnar.