Aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 19:10:29 (4709)

2000-02-22 19:10:29# 125. lþ. 68.18 fundur 358. mál: #A aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[19:10]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Sú tillaga sem hér er flutt er að mörgu leyti í samræmi við það sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að samræma atvinnuþróunarstarf í landinu. Fyrsta verkefnið á þessu sviði var eins og kunnugt er að flytja starfsemi Byggðastofnunar undir iðnrn. um síðustu áramót. Ég mun sem ráðherra byggðamála beita mér fyrir auknu samstarfi í hinu svokallaða stoðkerfi atvinnulífsins. Þessi vinna er þegar farin af stað og þær stofnanir sem heyra undir iðn.- og viðskrn. eru farnar að ræða saman um það hvernig þær geti aukið samstarf sín í milli í því skyni að efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Hér á ég við Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Ég tel reyndar að breikka þurfi þetta samstarf enn frekar. Með breiðu samstarfi er að mínu viti hægt að nýta betur það fé sem varið er af ýmsum stofnunum og sjóðum í opinberri eigu til atvinnuþróunar á landsbyggðinni.

Á þessari stundu tel ég því ekki skynsamlegt að stofna einn sjóð enn þó svo hér sé vissulega um mikilvægt verkefni að ræða.

Byggðastofnun fær rétt rúmlega 200 millj. kr. framlag úr ríkissjóði árlega. Af þeirri fjárhæð renna rúmlega 100 millj. kr. til starfsemi atvinnuþróunarfélaga sem staðsett eru í öllum kjördæmum landsins, um 50 millj. kr. til starfsemi stofnunarinnar, en þær 50 millj. kr. sem eftir standa renna til einstakra verkefna. Hér er ekki um stórar fjárhæðir að ræða og því er mikilvægt, eins og ég sagði áður, að Byggðastofnun taki upp samstarf við aðra sem veita fjármuni til atvinnuþróunar. Á slíkt samstarf er lögð áhersla í hinum nýju lögum um starfsemi Byggðastofnunar sem tóku gildi um síðustu áramót.

Starfsmenn Byggðastofnunar hafa lagt til að stoðkerfi atvinnulífsins vinni sameiginlega að gerð sérstakrar heimasíðu þar sem settar verði inn allar upplýsingar og leiðbeiningar um þá aðstoð sem veitt er af hinum ýmsu aðilum sem veita styrki, lán og ráðgjöf á sviði atvinnuþróunar. Slík heimasíða yrði í stöðugri endurskoðun og nýttist því betur en handbók sem yrði fljótt úrelt vegna þeirrar öru þróunar sem er í þessum málum.

Ég vænti þess að á næsta þingi muni ég leggja fram skýrslu um framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar í tengslum við þá endurskoðun, en samkvæmt gildandi lögum á að endurskoða stefnumótandi byggðaáætlun á tveggja ára fresti. Þá mun ég væntanlega gera grein fyrir því hvernig til hefur tekist við að auka samvinnu þeirra sem sinna atvinnuþróun.