Aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 19:26:17 (4712)

2000-02-22 19:26:17# 125. lþ. 68.18 fundur 358. mál: #A aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[19:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er kannski við hæfi að eins og einn karl blandi sér í þessa umræðu hér. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Erlingsdóttur fyrir að hreyfa þessu máli. Tillagan ber þess merki og framsöguræða hv. þm. að hún þekkir til þessara mála. Ég hygg að segja megi að þessi tillaga nálgist viðfangsefnið á tvo vegu með nokkuð nýjum hætti, sem að sjálfsögðu hefur oft og iðulega áður og með ýmsum hætti verið til umfjöllunar á Alþingi og hjá stjórnvöldum, þ.e. efling atvinnulífs á landsbyggðinni eða atvinnulífs almennt.

Það sem ég tel vera nýmæli og sérstakt fyrir þessa framsetningu málsins er annars vegar áherslan á að skoða aðstæður strjálbýlisins sérstaklega, þá fyrst og fremst það sem við í daglegu tali köllum sveitir. Ég hygg að atvinnuþróunarstarfið og ráðgjöf hafi yfirleitt verið almenn að þessu leyti og tekið til jafnt dreifbýlis eða sveita og þéttbýlis. Þó er það með vissum frávikum og mætti þar nefna starf sem unnið hefur verið undir hatti landbrn. með ýmsum hætti, hjá Framleiðnisjóði landbúnaðarins og tengt starf. Iðulega eru félagssvæði þeirra félaga sem að þessu vinna þó þannig saman sett að þau taka til stórra kaupstaða jafnt sem sveita.

Staðreyndin er hins vegar sú að þarna er ólíku saman að jafna. Aðstæðurnar eru ólíkar og viðfangsefnin ólík. Eins eiga í hlut ólíkar fjárhæðir þegar málið snýst um að styðja við starfsemi í smáum stíl af ýmsum toga eins og raunin er með þetta verkefni í sveitum landsins og hinu eiginlega strjálbýli.

Sú áhersla sem hér er lögð á samræmingu starfs á þessu sviði er einnig athyglisverð. Vissulega hefur það verið sett á blað víðar. Eins og hæstv. ráðherra minnti réttilega á er vikið að því, ef ég man rétt, í byggðaáætlun að samræma skuli þetta starf. Hér var einnig nefndur stjórnarsáttmálinn og það er gott og vel. Ég hygg nú samt að engir finni tilfinnanlegar fyrir því hve mikill frumskógur er að rata um þetta en þeir sem fjærst liggja miðstöðvunum og eiga kannski erfiðast með að bera sig eftir upplýsingum og leita sér ráðgjafar, þurfa jafnvel um langan veg að fara ef þeir ætla að hitta menn að máli, sækja sér gögn o.s.frv. Það er því skiljanlegt og rétt að mínu mati að leggja sérstaka áherslu á þetta tvennt þegar rætt er um aðgerðir til að efla og auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýlinu.

Herra forseti. Það er rétt að undirstrika það sem þegar hefur komið fram að ég er sannfærður um að öll rök hnígi til þess, bæði út frá reynslunni og skilningi á þeim aðstæðum sem þarna eru fyrir hendi, að með tiltölulega litlum fjármunum megi gera mjög mikið. Ég þekki mörg dæmi um þó nokkuð vel heppnuð verkefni þar sem erfiðasti hjallinn hefur verið í byrjun, að yfirstíga það að útvega grátlega litla fjármuni. Slík dæmi þekki ég frá fjölskyldum eða smáfyrirtækjum þar sem menn hafa verið að koma upp harðfiskverkun, tólgarbræðslu, lyfjagerð eða öðru slíku. Upphæðirnar sem í hlut eiga eru ekki stærri en svo að þær snúast um tækjakaup upp á kannski hálfa eða heila milljón, snúast um að standsetja húsnæði og kaupa pallbíl eða eitthvað því um líkt sem er nauðsynlegt til slíkrar starfsemi. Þá er ljóst að við erum ekki að tala þar um stórar fjárhæðir.

Við gætum leikið okkur aðeins með tölur. Ég vona að hæstv. ráðherra misvirði það ekki því ætlunin er ekki að ýfa upp deilumál. Við gætum tekið t.d. bara þá viðmiðun að fjárfestingin á bak við hvert einasta starf í stóriðju slagar upp í þær tölur sem hér eru settar á blað til að styðja þennan málaflokk fyrir landið í heild sinni. Við gætum t.d. velt fyrir okkur ýmsum öðrum viðmiðunum, t.d. fjármunum sem varið hefur verið til stærri aðgerða af þessum toga á undanförnum árum þar sem mönnum hefur tæpast þótt taka því að setja minni tölur á blað en 1 milljarð kr.

Ég er sannfærður um að það mun reynast rétt hér eftir sem hingað til að litlir fjármunir sem er skynsamlega varið í þessi verkefni og taka mið af aðstæðum gætu skipt þarna miklu máli. Ég vil leyfa mér að hvetja hæstv. ráðherra sérstaklega til að setja kraft í þennan hluta málsins. Mér er auðvitað ljóst að það er mikið verkefni að hafa allt sem heitir byggðamál og atvinnuþróun á sinni könnu en ég er sannfærður um og spái hæstv. ráðherra því að ef menn beina sérstaklega fjármunum og stuðningi að þessum hluta viðfangsefnisins, þ.e. eflingu atvinnulífs í sveitunum og í strjálbýlinu, þá geti það skilað lygilega miklum árangri.

Ég er þeirrar skoðunar að eins og svo víða annars staðar þar sem menn eru að glíma við vanda þá beri að beina aðgerðunum að rótum vandans. Það er alveg eins með atvinnumál og byggðaröskun og uppblástur á gróðurlandi, það á að beina kröftunum að því að hefta uppblásturinn á jöðrunum þar sem hann er. Eins er þetta í byggðamálunum. Það mun koma öllum til góða, líka stærri stöðum og landsmönnum öllum ef tekst að snúa vörn í sókn í atvinnu- og byggðamálum dreifbýlisins. Þar á hnignun fjölmargra byggðarlaga uppsprettu sína og sem síðan flyst áfram inn í þéttbýliskjarnana o.s.frv.

Að lokum, herra forseti, er rétt að nefna að þetta starf beinist ekki síst að konum. Ljóst er að einn vandi landsbyggðarinnar og strjálbýlisins sérstaklega er sá að þar fækkar konum umfram karla. Í heilum landshlutum eins og t.d. Austfirðingafjórðungi, þó að ég muni ekki tölur nákvæmlega, þykist ég muna að það teljist í hundruðum hve konur eru færri en karlar, og býr þar þó ekkert óskaplega margt fólk. Skekkjan er því veruleg og hlutföllin ójöfn svo að nemur þó nokkrum prósentustigum. Þar af leiðandi væri alveg sérstaklega mikilvægt og dýrmæt viðspyrna í því fólgin ef átak eins og þessi tillaga hv. þm. Helgu Erlingsdóttur mælir fyrir um gæti bætt aðstæður kvenna. Það gæti aukið tekju- og atvinnumöguleika sem iðulega geta fallið ásamt eða til hliðar við búskap og orðið til að styrkja sveitirnar í heild sinni.