Aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 19:34:09 (4713)

2000-02-22 19:34:09# 125. lþ. 68.18 fundur 358. mál: #A aukin fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[19:34]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft þörfu máli um að samræma aðgerðir og auka fjölbreytni í atvinnulífi í dreifbýli og er ekki vanþörf á að það sé gert. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Erlingsdóttur fyrir að hafa flutt þessa tillögu og fyrir þau orð sem hún viðhafði þegar hún mælti fyrir henni sem voru mjög athyglisverð og benda okkur á að fjölmargt er hægt að gera í atvinnulífi á landsbyggðinni. Þar þarf sérstaklega að huga líka að því sem snýr að því að efla atvinnutækifæri í smáum stíl og byggja undir hugvit og framtakssemi sem kann að vera til staðar í hinum dreifðu byggðum. Ekki veitir okkur af eins og víða er komið málum á landsbyggðinni þar sem atvinnutækifærum hefur fækkað, fólk hefur flutt burt, kvótinn er farinn og bændur hafa átt undir högg að sækja.

Ég kom í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu og vona að hún fái góðan framgang. Ég vona að reynt verði að hrinda því í framkvæmd sem hér er lagt til. Ég tel að hér sé um þarft mál að ræða sem verði okkur öllum til góðs og eigi mun af veita varðandi atvinnutækifæri, uppbyggingu og vörn fyrir jaðarbyggðir þessa lands.