Olíuleit við Ísland

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:11:10 (4739)

2000-02-23 14:11:10# 125. lþ. 70.13 fundur 356. mál: #A olíuleit við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að hreyfa þessu máli en hv. þm. hefur verið óþreytandi við að bera þetta mál inn í sali Alþingis á undanförnum árum. Sjálfur hef ég reyndar verið meðflm. hans að þáltill. um olíuleit við Ísland.

Iðnn. Alþingis fór í heimsókn í Orkustofnun í gær þar sem við funduðum með forsvarsmönnum stofnunarinnar. Þar bar þessi mál nokkuð á góma og kom skýrt fram að menn telja að setja þurfi lög um olíuleit til þess að erlendu aðilarnir verði til viðtals um að koma það þessu máli. Þess vegna fagna ég því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra hvað það varðar.

Það kom einnig fram að við þurfum að verja meira fé til hafsbotnsrannsókna, þetta eru aðeins 2 millj. í ár sem er of lítið. Því var einnig haldið fram að við þyrftum að tryggja réttindi okkar við Hatton-Rockall vegna þess að það væri kannski einna líklegasta svæðið. Þá minnist ég hins látna heiðursmanns, Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem óþreytandi var að brýna Alþingi í því máli ár eftir ár meðan hans naut við.

En ég er ánægður með svar hæstv. iðnrh. og tel að það sem þar kom fram horfi í rétta átt. Við þurfum að fylgja þessu máli vel eftir og komast að því í eitt skipti fyrir öll hvort þarna eru möguleikar.