Olíuleit við Ísland

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:12:38 (4740)

2000-02-23 14:12:38# 125. lþ. 70.13 fundur 356. mál: #A olíuleit við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem mál þetta hefur fengið hér og þingmönnum fyrir að hafa tekið svo vel í málið. Einnig þakka ég hæstv. iðnrh. fyrir svör hans.

Ég tek undir orð hv. þm. sem sagt hafa að allt of lág upphæð falli til þessara mála á hverju ári. Ég tel að við hefðum fyrr átt að taka tillit til nefndarinnar sem lagði til að a.m.k. yrði byrjað með 8 millj. og síðan aukið fjármagn til þess, virðulegi forseti, að gera þennan kost áhugaverðari fyrir erlend olíufélög.

Varðandi það sem nefnt hefur verið hér og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á í máli sínu, að við ættum að taka væntanlegan olíugróða í bókhaldi okkar með öllum fyrirvara, þá er enginn að tala um það, virðulegi þingmaður. Við erum aðeins að tala um að eðlilegt sé að við vitum meira um hafsbotninn í kringum Ísland, eins og hv. þm. kom réttilega inn á að verulega vantar upp á. Þess ber þó að geta að ég flutti þáltill. um rannsóknir á hafbotni hér til suðurs sem hefur verið samþykkt. Sú þáltill. var samþykkt af Alþingi og liggur fyrir ríkisstjórn til úrlausnar og frekari meðferðar.

En ég vil endurtaka þakkir mína til þingheims og virðulegs iðnrh. Ég vænti þess að meira fjármagni verði varið í þessar rannsóknir því við eigum hæfan hóp vísindamanna sem tilbúnir eru að leggja sig alla fram um að úrskurða um hvort við séum á villigötum eða hvort hér sé eitthvað sem við eigum að fylgja frekar eftir.

Það má benda á Færeyjar, hvað þar er að gerast og á Grænland þar sem menn eru í rannsóknum og hafa trú á að þar sé olía. Svo koma Íslendingar og segja: Það getur ekki verið að það sé nokkur olía hér. En það er auðvitað allt of mikil svartsýni og afturhaldssemi. Við eigum auðvitað að rannsaka málin og fá fullvissu okkar.