Rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 16:09:08 (4790)

2000-02-23 16:09:08# 125. lþ. 70.7 fundur 345. mál: #A rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[16:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vissulega er ánægjuefni að hér skuli eiga að koma upp 90 rúma hjúkrunarheimili fyrir sjúklinga sem þarfnast mikillar umönnunar. Ég verð þó að segja að mér finnst eitthvað bogið við vinnubrögð hæstv. ráðherra í þessum málum. Við höfum góða reynslu af Hrafnistuheimilunum. Þau hafa sýnt það með mikilli vinnu fyrir aldraða og þá sem þurfa umönnun að þau eru starfinu vaxin.

Ég veit ekki til hvaða reynslu hæstv. ráðherra var að vísa með Securitas. Ég kannast ekki við það að þeir hafi mikla reynslu í þessu. Þess vegna hef ég ákveðnar efasemdir um að þarna hafi verið farin rétt leið. Þarna hefði auðvitað átt að veita Hrafnistu sömu aðkomu og öðrum. Ég efast ekki um að þeir hefðu staðið jafnfætis Securitas eða a.m.k. ekki síður. Það er vissulega full ástæða til að ræða þetta mál og ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að koma með þessa umræðu inn í þingið.