Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:29:50 (4833)

2000-02-24 13:29:50# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), Flm. KVM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:29]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Tilefni þess að ég kem hingað upp er að vekja athygli á því alvarlega ástandi sem er að skapast í atvinnumálum á sumum stöðum landsbyggðarinnar. Það er reyndar nokkuð ljóst að atvinnuleysi í landinu hefur verið með meira móti yfir vetrartímann, einkum í janúar og febrúar á þeim stöðum sem ég tel að við eigum nú að beina sjónum okkar að. Þessir staðir eru t.d. Hrísey, Ólafsfjörður og Ísafjarðarbær eða réttara sagt, norðanverðir Vestfirðir og jafnvel fleiri staðir og byggðir.

Þegar slíkt tímabundið atvinnuleysi hefur komið upp hafa menn ekki orðið mjög áhyggjufullir vegna þess að þeir sáu fram undan möguleika til atvinnu þar sem um tímabundinn skort á hráefni var að ræða en nú er svo komið að slíkir möguleikar fara þverrandi því fyrirtæki hafa verið lögð niður og aflaheimildir seldar burt og engar aðrar komið í staðinn. Fiskverkafólk og jafnvel sjómenn hafa misst vinnu sína og eiga ekki von í annarri.

Löngum hefur það verið aðall landsbyggðarinnar að þar væri næg atvinna og menn hafa unað þar glaðir við sitt, ekki síst vegna atvinnuöryggisins. Þá hafa meðaltekjur á hvern íbúa t.d. á Vestfjörðum verið mun hærri en annars staðar en nú bregður svo við í ofanálag að þetta er að breytast. Að auki eru margar nauðsynjar mun dýrari úti á landi þannig að lág laun og enn þá lægri atvinnuleysisbætur dekkja myndina. Við það að störf eru sköpuð verða önnur til vegna þeirra.

Til skýringar getum við hugsað okkur snurvoðarbát með fimm manna áhöfn. Útgerðin og mannskapurinn þarf á ýmissi þjónustu að halda sem fyrirfinnst á útgerðarstað þessa báts. Börn sjómannanna þurfa kennslu, það þarf að vera verslun fyrir þá, smiðju- og veiðarfæraþjónusta og margt annað ef þessi bátur á að verða gerður út. Svo þarf auðvitað að landa fiskinum og jafnvel vinna í landi ef hann er þá ekki settur í gáma. Þegar slík útgerð afleggst detta ekki einungis út störf sjómannanna heldur og hinna sem þjónuðu í kringum bátinn. Þegar atvinnuleysi verður hjá einum er starfsöryggi annars ógnað í leiðinni. Atvinnufræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að í kringum eitt starf í frumframleiðslunni skapist þrjú þjónustustörf og í sumum tilvikum jafnvel fleiri.

Menn hafa sýnt virðingarverða viðleitni í nýsköpun atvinnulífs og margfrægt er að Íslensk miðlun hefur opnað starfsstöðvar á þessum stöðum og reyndar víðar en því miður er minna um verkefni þar en upphaflega var gert ráð fyrir. Þar bera stjórnvöld sína ábyrgð. Þetta fólk er mjög uggandi um framtíð sína. Sumt á eignir sem erfitt er að selja ef það vildi flytja á önnur svæði þar sem meiri möguleikar eru til að afla sér atvinnu en slík úrræði verða að teljast skipbrot og nánast flótti.

Atvinnuleysi landsbyggðarinnar birtist heldur ekki í þeim tölum sem fram koma því flutningar manna af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið eru gífurlega miklir. Þessir flutningar stafa ekki síst af óöryggi fólks um framtíð sína, afkomu og atvinnu og að tekjur manna á þessum svæðum hafa farið minnkandi. Þess má geta í leiðinni að flutningar manna af landsbyggðinni hafa verið slíkir undanfarið að það samsvarar því nánast að tvær fjölskyldur flytji suður á dag. Þetta segir okkur mikið um það hvar fólk telur tækifæri sín liggja eða a.m.k. hvar þau er að finna.

Enginn veit nema sá sem reynt hefur hvaða áhrif það hefur á einstaklinginn að missa vinnu sína. Það ferli sem hefst er á margan hátt sorgarferli og það hefur áhrif á sjálfsvirðinguna, það hefur áhrif á sjálfsmat mannsins. Þess vegna er það svo að margir skrá sig í síðustu lög á atvinnuleysisskrá og forðast jafnvel að segja frá stöðu sinni.

Virðulegi forseti. Margföldunarstuðull atvinnuleysis er hár og hættulegur. (Forseti hringir.) Því spyr ég hæstv. þjónandi félmrh. hvort ráðuneytið hafi einhver ráð eða fyrirheit handa því fólki sem nú gengur atvinnulaust á þeim stöðum sem ég nefndi áðan?