Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:50:07 (4839)

2000-02-24 13:50:07# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:50]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Stærsta atvinnumál hverrar þjóðar er að hafa skýra sýn til framtíðar, leita sóknarfæra og hafa trú á þeim færum. Versti óvinur hverrar þjóðar og atvinnulífs er bölmóðurinn sem bæði kyrkir og kæfir.

Nú er það svo, herra forseti, að atvinnuhættir breytast um leið og tækni breytist, viðhorf breytast og lífsstíll breytist. Allt hefur þetta áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun í hverju landi. Upp spretta nýjar atvinnugreinar og OECD og fleiri alþjóðlegar stofnanir hafa spáð því að mest fjölgun atvinnutækifæra og starfa verði tengd upplýsingahraðbrautinni í tengslum við fjarvinnslu. Það er mjög athyglisvert vegna þess að netið upphefur í raun öll landamæri og skiptingu þjóða í einstök svæði. Netið færir störf til þeirra sem eftir leita og hafa aðstöðu til þess að nýta sér þá upplýsingatækni.

Þess vegna, herra forseti, samhliða því að hlúa að hefðbundnum atvinnuháttum, er brýnt að sækja fram þar sem tækifærin eru í nýjum atvinnuháttum. Því er mikilvægt og eitt brýnasta úrlausnarverkefni okkar sem alþingismanna að fylgja eftir samþykktum fjarskiptalaga um að koma ISDN-tengingu inn á hvert heimili.

Í öðru lagi er brýnt að jafna kostnað, tryggja að allir landsmenn beri jafnan kostnað af því að ferðast á upplýsingahraðbrautinni. Ég nefni líka, herra forseti, mikilvægi þess að ríkisvaldið fylgi eftir hugmyndum um að bjóða störf í fjarvinnslu á netinu og efla fjarkennslu. Aukin fjarkennsla og aukið menntastig skapar nýjar hugmyndir og ný atvinnutækifæri. Það er mikilvægt, herra forseti, að átta sig á því að netið er nýjasta búgreinin og með henni styrkjum við atvinnutækifæri á nýrri öld.