Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 14:00:51 (4844)

2000-02-24 14:00:51# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa málefnalegu umræðu og tek undir margt sem kom fram í henni. Góður vilji er auðvitað mikilvægt mannlegt afl sem getur haft áhrif.

Ég vil segja við hv. þm. Kristján Möller að ég er enn sömu skoðunar. Ég er einn af 63. Ég trúi á það að menn þurfi virkilega að skoða skattamál landsbyggðarinnar. Í mörgum tilfellum eru menn því miður að borga hærri skatta þar. Það þarf að vera jöfnuður. En það þarf líka að huga að skattaumhverfinu til þess að fólk og ekki síður fyrirtæki fjárfesti á landsbyggðinni og byggi sig upp þar. Trú mín er enn sú sama og hún var og ég mun berjast með þeim sem vilja varpa þessari sýn og trúi því að það verði skoðað betur hvaða áhrif slíkt muni hafa.

Mér kemur að vísu ástandið á Vestfjörðum dálítið á óvart, þ.e. að þar skuli vera vaxandi atvinnuleysi því ég veit að þar er gríðarlegur fjöldi erlendra verkamanna að störfum. En hvað Vestfirði varðar og aðra staði --- ég var í Vestmannaeyjum á dögunum --- þá er þar meira atvinnuleysi en verið hefur. Að þessu verðum við að huga, með því afli sem við eigum, þ.e. atvinnumálaráðuneytunum, Byggðastofnun, sveitarstjórnunum og atvinnuþróunarsjóðum.

Hv. þm. Helga Erlingsdóttir kom hér inn á stórmál sem snýr að mér sem landbrh., þ.e. hvað Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga varðar, en í hann greiða bændur. Ég hef miklar áhyggjur af því að ekki hefur fengist viðurkennt að atvinnuleysi geti verið að hluta til á bænum. Liggi fyrir að hjónin hafi ekki tekjur til þess að lifa af þá hefur það ekki náðst fram hjá félmrh. að viðurkenna það sem atvinnuleysi og atvinnuleysisbætur verið greiddar.

Ég þakka hv. þm. fyrir að koma inn á þetta atriði. Ég ræddi þetta síðast í mínu ráðuneyti í morgun. Gagnvart landbúnaðinum þurfum við auðvitað að fara yfir það ef menn eru að greiða eitthvað sem þeir fá ekki til baka.