Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 16:19:08 (4860)

2000-02-24 16:19:08# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að þetta frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum er loksins komið fram. Ekki hefur unnist mikill tími til þess að fara yfir hverja grein og þær tilvísanir sem þar eru í ýmsar Evrópusamþykktir og hefði þurft lengri tíma til undirbúnings fyrir 1. umr. Það verður vonandi gert í hv. umhvn. að bera saman þær tilskipanir sem vitnað er til og þau atriði sem koma fram í greinum þessa frv. Það er hins vegar ámælisvert að frá þeim tíma sem gert var ráð fyrir að ný lög um mat á umhverfisáhrifum væru samþykkt er nú liðið líklega um ár, því búið var að boða að endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum ætti að fara fram og nýtt frv. í samræmi við Evrópustefnuna að vera komið fram á Alþingi. Mig minnir að tíminn sem við höfðum til að koma með ný lög um mat á umhverfisáhrifum hafi runnið út í mars á síðasta ári, en það má vera að það sé ekki rétt munað hjá mér. Við erum dálítið sein með afgreiðslu á þessu frv. og úrbótum á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Í 1. gr. frv. þar sem talað er um markmið, gildissvið og skilgreiningar segir í c-lið, með leyfi forseta: ,,að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp.``

Þessi liður er auðvitað mjög mikilvægur en í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum af umræðunum um Fljótsdalsvirkjun hefði kannski ekki verið úr vegi að bæta einum lið við þessa upptalningu, þ.e. að ráðuneytinu væri gert skylt að upplýsa almenning um hvað mat á umhverfisáhrifum er. Því það virtist vera þannig, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem við höfum gengið í gegnum í vetur um Fljótsdalsvirkjun, að almenningi væri ekki ljóst hvað fælist í mati á umhverfisáhrifum. Menn túlka það svo að eingöngu sé um að ræða mat á áhrifum á náttúruna, nánasta umhverfi og þá náttúrufarið. Ekki að taka þurfi tillit til fleiri þátta, svo sem byggðasjónarmiða og efnahagslegra áhrifa framkvæmda hverju sinni. Þegar þessir þrír þættir eru allir teknir saman skuli niðurstaða þess ráða ferð en ekki eingöngu skoðun á nánasta umhverfi eða náttúrunni. Ég beini því til hæstv. ráðherra sem setti í gær fram markmiðslýsingar umhvrn. fyrir þetta kjörtímabil um starfsemi ráðuneytisins að afar mikilvægt er að upplýsingastreymi, fræðslustarf ráðuneytisins sé eflt til muna frá því sem er í dag. Það er mjög nauðsynlegt að efla alla upplýsingagjöf um umhverfismálin og einstök mál sem verið er að höndla með í ráðuneytinu. Það er ekki bara þetta frv. um mat á umhverfisáhrifum eða lögin um mat á umhverfisáhrifum, heldur fjöldi annarra þátta í umhvrn. þar sem upplýsingagjöfin hefur ekki verið nægjanleg og þarf að bæta um betur.

Ég treysti hæstv. ráðherra til að fara í það að gefa út bæklinga á mannamáli, því það er nú eitt af því sem hægt er að finna að þessu frv. sem og mörgum öðrum, að það er alveg með ólíkindum að við skulum alltaf vera að fást við lagatexta, væntanlegan lagatexta, sem skrifaðir eru upp í kokið á lögfræðingum en ekki almenningi eða stofnunum þeim sem eiga að skilja lögin og vinna eftir þeim. Vegna þess að það eru ekki bara lögfræðingar eða starfsmenn ráðuneytis sem hafa komið að samningu frumvarpa sem eiga að vinna eftir þeim í framtíðinni, það eru miklu fleiri. Og allur almenningur þarf að skilja lögin sem gilda hér á landi. Þessi texti er vondur og þetta er klúðurslegt frv. Ég treysti því að farið verði rækilega yfir textann í umhvn. og hann gerður skiljanlegri jafnvel þó að menn breyti ekki merkingu einstakra greina en hann skoðaður með tilliti til þess að fólk skilji hvað um er að ræða. Þetta er ekkert einsdæmi, þetta er ekkert betra eða verra en mörg önnur frv. sem við höfum fengið til umfjöllunar hér á hv. Alþingi þar sem textinn er illskiljanlegur eða mætti vera miklu betri og markvissari og segja hlutina þannig að þeir væru skiljanlegri.

En varðandi I. kafla og markmiðið, markmiðið á að vera það að allur almenningur viti hvað stendur í frv., um hvað það snýst eða lögin þegar og ef þetta frv. verður að lögum, að þá viti allur almenningur um hvað þetta snýst og hvað felst í mati á umhverfisáhrifum. Það er mjög mikilvægt að koma þeim upplýsingum á framfæri.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi ræða sérstaklega og þá fyrst og fremst 3. gr. um skilgreiningarnar. Þar er setning sem ég á afar erfitt með að skilja. Það er l-liður í 3. gr. þar sem fjallað er um umtalsverð umhverfisáhrif. Hvað er það? Umtalsverð umhverfisáhrif eru veruleg óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu. Mér virðist svona við fyrstu sýn að þetta sé stærsti galli þessa frv. Það er skilgreiningin á því hvað eru umtalsverð umhverfisáhrif. Þetta er þó lykilhugtak frv. og þeirra laga sem í gildi eru og ef þetta frv. verður samþykkt, þá er þetta lykilhugtak frv., þ.e. umtalsverð umhverfisáhrif, þar sem meginmarkmið laganna á að vera að tryggja að fram fari mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og tryggja að framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif séu kynntar fyrir almenningi og honum gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri, eins og kemur fram í 1. gr. sem ég vitnaði til áðan.

Í 3. gr. frv., um skilgreiningar, og í l-lið þeirrar greinar er þetta lykilhugtak skilgreint mjög sérkennilega og reynt að þrengja það eins og nokkur kostur er. Reyndar finnst mér að þarna sé verið að setja á þann sem á að meta hvort óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif séu til staðar afar erfitt verk, að framkvæma einhvers konar umhverfismat áður en umhverfismatið fer fram. Ef við síðan skoðum þessa þröngu skilgreiningu með hliðsjón af 6. gr. frv. og þeim framkvæmdum sem skilgreindar eru í viðauka 2, þá á skipulagsstjóri samkvæmt þessu að meta umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar áður en hann ákveður hvort að hún skuli fara í mat. Þetta verður ekki skilið öðruvísi. Hann á að meta hver áhrifin eru, hvort þau eru neikvæð eða jákvæð, afturkræf eða óafturkræf og hvort hægt sé að fyrirbyggja veruleg spjöll með mótvægisaðgerðum eða ekki. Skipulagsstjóri á sem sagt að fara í frummat áður en ákveðið er hvort framkvæmdin skuli fara í mat á umhverfisáhrifum. Ég tel að þetta sé hrein og klár hringavitleysa sem miðar að því eina marki að koma í veg fyrir að framkvæmdir sem taldar eru upp í viðauka 2 fari nokkurn tíma í mat. Það er útilokað að skilja þau orð öðruvísi en að þrengja eigi verulega möguleikann á því að framkvæmdin fari í mat. Markmiðið með matsferlinu sjálfu er að meta hver umhverfisáhrifin af viðkomandi framkvæmd eru, vega saman jákvæð og neikvæð áhrif og kanna hvort koma megi í veg fyrir spjöll með mótvægisaðgerðum.

[16:30]

Það er hlutverk mats á umhverfisáhrifum og það getur varla samræmst þessu meginmarkmiði með matsferlinu sjálfu að skilgreina hugtakið umtalsverð umhverfisáhrif eins og gert er í 3. gr. frv. Ef skoðaðar eru athugasemdir við 3. gr. frv. þá stendur þar, með leyfi forseta:

,,Við skilgreiningu á þeim hugtökum sem koma fram í frumvarpinu hefur verið stuðst við skýringar í tilskipun 85/337/EBE og 97/11/EB.``

Ég hef þessa skýrslu undir höndum og ég á afar bágt með að samþykkja það að þar sé hugtakið umtalsverð umhverfisáhrif bundið því að um sé að ræða neikvæð og óafturkræf áhrif eða veruleg spjöll sem ekki er hægt að fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum. Ég hlýt því að spyrja hæstv. umhvrh. hvort þessi skilgreining sé að hennar mati í fullu samræmi við tilskipunina. Ég tel að svo sé ekki og hvet hv. nefndarmenn í umhvn. til að fara yfir þessa tilskipun og bera saman við frumvarpstextann. Í mínum huga er það alveg ljóst að með þessari skilgreiningu í 3. gr. er verið að breyta eðli og gildissviði laga um mat á umhverfisáhrifum verulega frá því sem nú er. Það er verið að þrengja gildissviðið í þeim eina tilgangi, sýnist mér, að koma í veg fyrir að margvíslegar framkvæmdir sem kunna að hafa veruleg umhverfisáhrif, fari í umhverfismat. Það má lengi teygja og toga orðin neikvæð og óafturkræf. Með þessari nýjung í lögunum er að mínu mati verið að efna til ófriðar og draga verulega úr gildi þess tækis sem við höfum til að finna bestu lausnir og koma í veg fyrir slys.

Virðulegi forseti. Nú þegar er búið að fara yfir þessar greinar en ég á mjög erfitt með að átta mig á upptalningunni, sérstaklega í 1. viðauka þar sem upptalning er á framkvæmdum sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum. Í 10. tölul. 1. viðauka segir, með leyfi forseta:

,,i. Stofnbrautir í þéttbýli.

ii. Nýir vegir utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri. Enduruppbygging vega utan þéttbýlis þar sem nýlagning samkvæmt áætlunum nær yfir a.m.k. 10 km svæði.``

Það má náttúrlega fara í fleiri liði þarna þar sem um annaðhvort ákveðinn hektarafjölda, metrafjölda eða um aðrar stærðartakmarkanir er að ræða. Ég á mjög erfitt með að skilja hvers vegna vegur sem er 9 kílómetra langur getur verið undanþeginn mati en ekki vegur sem er 11 km langur. Hvaða rök liggja þarna að baki? Er það svo að vegagerð á 9 kílómetra löngum spotta geti ekki að mati hæstv. ráðherra haft í för með sér veruleg spjöll á náttúrunni eða neikvæð og óafturkræf áhrif? Við höfum mýmörg dæmi þess að styttri vegaspottar hafa verið færðir til í landi eftir mat á umhverfisáhrifum og með því hefur verið komið í veg fyrir náttúruspjöll.

Þetta og reyndar mörg önnur stærðarmörk sem sett eru fram í viðaukum 1 og 2 þarfnast rækilegrar endurskoðunar í nefnd, sérstaklega með tilliti til þessarar skýringar á l-lið 3. gr. þar sem skipulagsstjóri skal skoða prívat og persónulega hvort um óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu er að ræða. Svona stærðarmörk eru alltaf mjög hæpin vegna þess að mat á umhverfisáhrifum hlýtur að þurfa að fara fram við allt jarðrask, hvort sem raskið tengist einum, tveimur, þremur kílómetrum eða fleiri. Kílómetrafjöldinn skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli eru áhrifin á umhverfið, náttúruna og byggðina, efnahagsleg áhrif. Við eigum að hafa þetta gildissvið eins víðtækt og mögulegt er en ekki þrengja það á allra handa máta eins og mér finnst vera gert í þessu frv. Þess vegna hlýt ég að lýsa yfir óánægju minni með þetta frv. sem ég hef haft verulegar væntingar til, virðulegi forseti, þ.e. vegna þess að gildissviðið er þrengt frá núgildandi lögum. Og ég dreg stórlega í efa að sú skilgreining á hugtakinu sem fram kemur í 3. gr. standist þær Evrópusamþykktir,sem við eigum að fara eftir og bið hæstv. ráðherra að fara hér yfir það lið fyrir lið með okkur hvernig hún les þessa tilskipun sem vitnað er til. Hér hefur áður verið rætt um þýðingar úr norsku, en ég held að það sé full ástæða til að fara yfir það í nefndinni hvort þessi þýðing standist því ég er sannfærð um það, þó að ég sé geti nú ekki sagt eins og sumir að ég tali lýtalausa ensku. En mín enskukunnátta nær þó a.m.k. það langt að ég tel að þarna sé ekki um rétta skilgreiningu að ræða.

Virðulegi forseti. Ég tek síðan undir þær ábendingar og athugasemdir sem hér hafa komið fram og eru um ákvæði til bráðabirgða sem ég tel að nefndin hljóti að fara gaumgæfilega yfir, ákv. til brb. I sérstaklega þar sem kveðið er á um, með leyfi forseta, að:

,,Þrátt fyrir ákvæði III. kafla laga þessara eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum séu þær hafnar fyrir árslok 2002.``

Nú er það í valdi ráðherra hæstv. að ákveða hvort framkvæmd sé hafin eða ekki, en ég tel að nefndin þurfi að fara yfir það hvort þetta samræmist þeim reglum sem við höfum undirgengist og þeim Evróputilskipunum sem við eigum að fylgja.

Virðulegi forseti. Það er þó fyrst og fremst 3. gr. og skilgreiningin, orðalag frv. í heild sinni sem þarf að vera miklu skýrara, markvissara og skiljanlegra fyrir þá sem eiga að vinna eftir þessum lögum eða vilja kynna sér þau. Upplýsingahlutverk ráðuneytis og síðan þessa viðauka og eins ákvæði til bráðabirgða sem þarf að fara sérstaklega yfir.

Virðulegi forseti. Mig langar líka í lokin að spyrja hæstv. ráðherra af sérstökum ástæðum hvort hún telji ekki að meiri háttar skógræktarframkvæmdir séu matsskyldar. Ég get ekki skilið núgildandi lög öðruvísi en svo að allar meiri háttar framkvæmdir, skógræktarframkvæmdir, eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum vegna þess að meiri háttar skógræktarframkvæmdir hafa áhrif á náttúrufar. Mig minnir að það sé þannig í lögum varðandi Suðurlandsskóga að kveðið sé á um að þær framkvæmdir skuli fara í mat á umhverfisáhrifum. Það hefur ekki verið gert. Nú erum við að fá fleiri og fleiri mál sem tengjast skógrækt og mikill áhugi er fyrir því að efla skógrækt, sérstaklega til að binda koltvísýring til þess að standa við Kyoto-bókunina og virðist það í raun og veru vera eina svarið sem ríkisstjórnin hefur til þess að uppfylla skilyrði Kyoto. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra af því ég tel það mjög mikilvægt: Telur hæstv. ráðherra það ekki vera þannig að allar meiri háttar skógræktarframkvæmdir skuli fara í umhverfismat, t.d. Suðurlandsskógar sem og aðrar skógræktarframkvæmdir, samkvæmt lögum sem gilda nú?