Mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 17:38:50 (4882)

2000-02-24 17:38:50# 125. lþ. 71.22 fundur 378. mál: #A mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla# þál., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[17:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það mál sem hér um ræðir er eiginlega þrjú mál. Það varðar í fyrsta lagi, ef ég skil þetta rétt, þorskígildin. Um þau gilda þær reglur að miðað er við markaðsverð tegundanna og gildi tegundanna metið eftir markaðsvirði þeirra. Vegið er saman hversu mikils virði einstakar tegundir eru reiknað út frá þorskígildum. Þessi aðferð sem við höfum notað og lagt til grundvallar í mjög mörgu í fiskveiðistjórn okkar er tiltölulega einföld og þarf að vera samanburðarhæf frá einum tíma til annars. Ég hef ákveðnar efasemdir um að við bætum okkur mikið með því að endurskoða þá aðferð. Ef við gerum það getum við ekki lengur borið saman það sem áður var því þá erum við komin með öðruvísi útreiknuð þorskígildi. En ég held að það séu ákveðin takmörk á því að skoða þennan þátt sérstaklega.

Í öðru lagi er síðan um að ræða nýtinguna í vinnslunni og þá væntanlega sérstaklega um borð í vinnsluskipunum. Þar hefur átt sér stað töluvert mikil þróun á síðustu tveimur árum með auknu og virkara eftirliti Fiskistofu með vinnsluskipunum. Þar er síðan aftur um samanburðarfræði að ræða þar sem bornar eru saman prufur sem gerðar eru undir stöðluðum kringumstæðum og þegar skipin eru tekin út. Það er síðan borið saman við sýni sem tekin eru úr afla af handahófi og reiknað út hvernig skipin standa sig í því að uppfylla þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Ef í ljós kemur að nýtingin er ekki eins og henni er ætlað að vera er skipunum refsað fyrir. Þessa vinna hefur verið í gangi á allra síðustu árum og er verið að þróa hana enn þá frekar og þessu til viðbótar er starfandi nefnd til að bera saman samkeppnisstöðu sjóvinnslu og landvinnslu. Einmitt þessi þáttur er væntanlega stór hluti af því starfi.

Þriðja atriðið er slægingarstuðlarnir. Þeim var breytt fyrir tveimur árum, ef ég man rétt. Þeir skipta auðvitað gríðarlega miklu máli og það fer þá bæði eftir árstíma og hvar menn eru staddir á fiskimiðunum hvert hið raunverulega hlutfall ætti að vera. Ég verð að viðurkenna að þetta er afar flókið mál og svolítið erfitt að átta sig á hvernig á að nálgast það. En Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur rannsakað þessi mál og til er sennilega þriggja ára gömul skýrsla um þetta efni. Ég er sannfærður um að bæta má þar úr og má eiginlega orða það þannig að þetta mál hafi legið á borðinu hjá mér í nokkurn tíma. En vegna þess hversu flókið það er hef ég ekki alveg áttað mig á því enn þá hvernig rétt er að nálgast það.

En ég tek undir með hv. flm. að þetta er mál sem þarf að skoða og getur skipt gríðarlega miklu máli, ekki bara fyrir vinnsluna í landi eða einstök skip heldur raunverulega fyrir fiskveiðistjórnina í heild.