Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:07:34 (4891)

2000-03-06 15:07:34# 125. lþ. 72.2 fundur 351#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það var hugsun ríkisstjórnarinnar að nú við upphaf kjarasamninga væri heppilegast og hollast að ríkið héldi sig eins mikið til hlés og mögulegt væri og aðilar vinnumarkaðarins mundu sjálfir varða þá braut sem kjarasamningarnir mundu fylgja. Eins og kunnugt er höfum við, fjórir ráðherrar, átt fundi með forustumönnum Alþýðusambandsins að beiðni þeirra vegna þeirrar samningalotu sem er nú hafin. Þar var óskað eftir því af hálfu Alþýðusambandsins að ríkisvaldið hefði ákveðinn atbeina að því að skapa grunn fyrir kjarasamningum. Við lýstum því yfir þá, þeir ráðherrar sem þá sátu af hálfu ríkisstjórnarinnar, að við vildum taka þátt í því að fara yfir þau mál þrátt fyrir þá stefnu sem við höfðum áður markað varðandi afskipti ríkisins. Við höfum því nú að undanförnu skoðað hvernig ríkið gæti komið að málinu og þá í tengslum við skattalagabreytingar.

Ég tel ekki efni til að fara út í einstaka þætti en get þó sagt að þeir þættir sem hv. þm. nefndi, a.m.k. flestir hverjir, hafa verið til athugunar af hálfu þessara ráðherra.