Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:09:14 (4892)

2000-03-06 15:09:14# 125. lþ. 72.2 fundur 351#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Það er mikilvæg yfirlýsing sem hann hefur gefið um að ríkisstjórnin hyggist koma til móts við kröfur launafólks. En ég vek athygli þingheims á því að þær kröfur sem eru til umfjöllunar fjalla í reynd ekki um kjarabætur heldur er verið að reyna að koma í veg fyrir frekari kjaraskerðingu. Ef skattleysismörk hefðu fylgt lánskjaravísitölu frá 1988 eins og stóð til að gera og skattprósenta væri sú sama nú og var þá, þá væru skattleysismörkin 88 þús. kr. en ekki 64.916 eins og nú er hjá þeim sem greiða í lífeyrissjóð, 62.320 kr. fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.

Kröfur um stuðning við barnafólk byggja ekki á kröfunni um að bæta þessa stöðu heldur koma í veg fyrir skerðingu og fá til baka það sem ríkisvaldið hefur tekið á liðnum árum. Í upphafi síðasta áratugar var stuðningur við barnafólk 1,21% af landsframleiðslu. Núna er hann 0,6% af landsframleiðslu og enn stendur til að skerða þessi kjör.