Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 16:16:39 (4917)

2000-03-06 16:16:39# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[16:16]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að afar mikilvægt sé að halda góðum tengslum við verkalýðshreyfinguna. Ég held að afar mikilvægt sé að verkalýðshreyfingin hafi skjól að því er varðar stefnumið sín og markmið hjá þeim flokkum sem stefna þeirra fer saman við. Þá er ég fyrst og fremst að tala um lægst launaða fólkið í þjóðfélaginu. Það er því ekkert nema til að lýsa ánægju með að hv. þm. vitni til þess að ég eða sá flokkur sem ég er í vilji halda góðum tengslum við verkalýðshreyfinguna.

Hv. þm. vitnaði í 10. gr. frv. og talaði um að þar væri einungis verið að ræða um einstaklinga eða fyrirtæki þegar nafngreina á þá sem gefa yfir tiltekna fjárhæð. Ég sé ekkert á móti því, herra forseti, ef það væri nú einungis ásteytingarsteinninn að herða á því ákvæði og bæta inn fleiri aðilum. Ég tel það bara af hinu góða ef menn vilja herða á því og nefna einhverja aðra aðila en hér koma fram vegna þess að vitaskuld á þetta að vera allt saman opið að því er þessa þætti varðar. Ég kvíði því ekki að ekki verði hægt að ná einhverju samkomulagi við hv. þm. Halldór Blöndal um þetta mál ef hann hefur einungis þetta við frv. að athuga.