Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 16:42:01 (4921)

2000-03-06 16:42:01# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., MSv
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Margrét K. Sverrisdóttir:

Herra forseti. Í því frv. sem er til umræðu er annars vegar lagt til að settur verði almennur lagarammi um starfsemi stjórnmálasamtaka og hins vegar er kveðið á um fjárreiður þeirra. Í 5. og 6. gr. I. kafla þessa frv., sem snýr að starfsemi stjórnmálasamtaka, er kveðið á um annars vegar að tilvonandi félögum í stjórnmálasamtökum beri að sækja skriflega um aðild og hins vegar að æðsta vald í málefnum stjórnmálasamtaka skuli vera í höndum félagsmanna eða fulltrúa þeirra á landsfundi eða öðrum sambærilegum vettvangi.

Ég vil gera athugasemdir við þessar greinar á þeirri forsendu að ég tel óeðlilegt að ríkisvaldið setji stjórnmálasamtökum lög um innri starfsemi út í þann hörgul sem þarna er gert. Mér finnst 5. og 6. gr. hreinlega óþarfar. Þá sakna ég þess að sjá ekki í frv. reglur um takmörkun auglýsinga í kosningabaráttu og reglur um birtingu skoðanakannana dagana fyrir kjördag en þessara atriða er þó getið sérstaklega í greinargerðinni með frv.

Ég er hins vegar mjög hlynnt þeim hluta frv. sem snýr að fjárreiðum stjórnmálasamtaka því að krafan um opinber fjármál íslenskra stjórnmálaflokka verður sífellt háværari enda verða þær raddir sífellt háværari sem halda því fram að hagsmunaaðilar gefi hugsanlega stórar fjárhæðir til flokkanna tveggja sem fara með meiri hluta á Alþingi, flokkanna sem ráða mestu um hvernig löggjöfin lítur út.

Hvað er í húfi, herra forseti? Það er lýðræðið sjálft, hvorki meira né minna. Við viljum trúa á lýðræðið en ég veit hversu bjöguð myndin af lýðræðinu getur orðið í kosningabaráttu á Íslandi þegar litlir flokkar með málstaðinn einan að vopni berjast við stóru flokkana sem hafa tugi milljóna að spila úr. Þeir hafa efni á að láta dýrustu auglýsingastofur hanna þá ímynd sem þeir telja vænlegast að ginna kjósendur með hverju sinni, hvort sem það eru skammvinn loforð um stöðugleika og góðæri eða fagurgali um betri hag til handa öryrkjum og barnafólki.

Í Bandaríkjunum eru áhrif peninga á stjórnmál með þeim hætti að mönnum hrýs hugur við. Eins og kunnugt er var nýlega flett ofan af mikilli fjármálaspillingu rótgróins stjórnmálaflokks í Þýskalandi. En í mörgum ríkjum Evrópu, þar á meðal á Norðurlöndum, hefur verið tekið á þessum málum með löggjöf. Þar eru flokkar skyldugir til að gefa upp nöfn þeirra aðila sem gefa meira en 200--300 þús. ísl. kr. í framlög. Ég vil geta þess að frá því að Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður hefur hann verið með opið bókhald og reglulega birt fjármálayfirlit á heimasíðu sinni. Einnig var ákveðið þegar við stofnun hans að upplýsa um gefendur ef framlög næmu meiru en 300 þús. kr. og er það í samræmi við 10. gr. þess frv. sem er til umræðu.

[16:45]

Flutningsmaður frv., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, gat þess hér áðan að auk frjálsra framlaga væru íslenskir stjórnmálaflokkar fjármagnaðir af ríkissjóði og það sé m.a. gert til að jafna aðstöðu flokkanna. Það samræmist nefnilega ekki hugmyndum almennings um lýðræði ef aðeins fjárhagslega sterk samtök geta boðið fram til Alþingis. Varðandi þetta vil ég benda sérstaklega á 11. gr. frv. þar sem fjallað er um framlag til einstakra stjórnmálasamtaka, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Framlag til einstakra stjórnmálasamtaka byggist á hlutfallslegri skiptingu þingsæta í undangengnum alþingiskosningum, þó þannig að stjórnmálasamtök, sem hafa fengið a.m.k. 2,5% af greiddum atkvæðum í kosningunum á landinu öllu án þess að hafa náð þingsæti, eiga rétt á framlagi í eitt ár sem svarar til eins þingsætis.``

Þarna er gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi hvað það varðar að skilyrði fyrir fjárstyrk eru þau að flokkur skuli hafa hlotið að lágmarki 2,5% atkvæða í alþingiskosningum. Ég geri það hins vegar að tillögu minni að stjórnmálasamtök sem hafa lagt fram framboðslista í öllum kjördæmum ásamt tilskildum stuðningsyfirlýsingum og meðmælalistum við þá, innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í kosningalögum, fái einhvern lágmarksstyrk úr ríkissjóði, til að mynda 2--3 milljónir. Rökstuðningur minn er sá að með þessu verði nýjum stjórnmálasamtökum gert kleift að koma fram á vettvangi stjórnmálanna án þess að einstaklingar sem að þeim standa þurfi að leggja eigur sínar að veði og taka mikla fjárhagslega áhættu. Takist stjórnmálasamtökum að ganga frá framboðslistum og skila meðmælalistum við þá finnst mér að þeim beri lágmarksstyrkur í nafni lýðræðisins þó svo að þeir fái ekki 2,5% atkvæða. Ég legg því til að prósentuhlutfallið verði lækkað eða þessu ákvæði 11. gr. breytt því það er mjög alvarlegt íhugunarefni ef flokkar á þingi geta girt völd sín fjárhagsmúrum svo að engum verði hleypt þar að.

Það er varinn réttur stjórnmálasamtaka samkvæmt stjórnarskrá að bjóða fram en við verðum að gæta þess að slík samtök kafni ekki í fæðingu sökum fjárskorts. Flokkar á þingi eiga styrkina nefnilega alltaf vísa. Þeim mun stærri sem flokkarnir eru þeim mun hærri eru framlögin á meðan ný framboð eiga erfitt uppdráttar í landi okkar, sem við þó viljum kalla lýðræðisríki. Þingflokkarnir skiptu með sér 136 milljónum bara í útgáfustyrki, fyrir kosningarnar vorið 1999. Forskot þeirra á nýja flokka er því gríðarlegt.

Herra forseti. Varðandi orð hæstv. forsrh. um að hér á landi hafi engar reglur verið brotnar vil ég þó segja að grunsemdir um að unnt sé að kaupa sértækum hagsmunum framgang á Alþingi grafa undan trausti almennings á íslenskum stjórnmálum og stjórnmálamönnum og þar með lýðræðinu sjálfu. Sögusagnir sem hér var vitnað til, um að þeir sem eiga gríðarlegra hagsmuna að gæta varðandi kvóta eða miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði hafi gefið stjórnarflokkum stórar fjárhæðir, hafa gengið fjöllunum hærra. Ég mundi ætla að stjórnarflokkarnir kysu að svipta hulunni að fjármálum sínum til að þagga slíkar sögusagnir niður, sanna að málin séu ekki með þessum hætti. En það er öðru nær. Sjálfstfl. hefur til þessa verið og er greinilega enn tregur til að gefa upp nokkuð varðandi fjárreiður sínar og það kyndir undir grunsemdum almennings um að óhreint mjöl sé í því pokahorninu.

Þegar skipuð var nefnd fyrir nokkrum árum til að gera tillögur um þessi mál hér á Íslandi þá voru skipaðir í hana fulltrúar stjórnmálaflokkanna. Vitanlega þyrfti slík nefnd að vera eins óháð stjórnmálaflokkum og mögulegt er, óháð ríkisstjórninni og óháð þingflokkunum. Flestir Íslendingar telja það mjög alvarlega spillingu og mútur ef hagsmunaaðilar gefa gjafir til þeirra sem ráða löggjöf, enda er hagsmunaaðilum bannað með lögum að bera gjafir á embættismenn einmitt af þeirri ástæðu. Ég fullyrði ekki að slíkt sé gert eða hafi nokkurn tíma verið gert. En það er nauðsynlegt að almenningur fái að vita hvaðan stjórnmálaflokkar fá peninga sína. Leyndin sem yfir því hvílir í dag vekur grunsemdir og vantraust og grefur undan lýðræðinu í landinu.

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi Frjálslynda flokksins við þetta frv., að öðru leyti en því sem fram hefur komið í máli mínu hér að framan.