Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 16:59:19 (4923)

2000-03-06 16:59:19# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Vinstri grænir ræða hér um opið bókhald og framlög sem opinberuð eru af ráðamönnum flokksins. Það hefur náttúrlega komið fram hjá hæstv. forsrh. að fjármálum vinstri grænna er stjórnað af örfáum sem veita þar verulega háar upphæðir í rekstur þessa stjórnmálaflokks og hafa þar augljóslega mikil áhrif í krafti þess mikla fjármagns sem þeir leggja þar inn hlutfallslega, þ.e. miðað við það sem þeir yfirleitt fá inn í sjóði sína.

[17:00]

Mér fannst hv. þm. Ögmundur Jónasson fara nokkuð víða, sérstaklega þegar hann fór að væna Sjálfstfl. um að reyna að fótumtroða lýðræðið með því að stunda einhvers konar persónunjósnir á kjörstöðum, eins og hv. þm. orðaði það, með því að fulltrúar flokksins sitji þar og fylgist með því hverjir koma og kjósa.

Mig langar að spyrja hv. þm. sérstaklega út af þessu atriði hvort hann viti að þar sem Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir fylgjast með kosningum úti í heimi, þar sem óttast er að ekki sé farið eftir lýðræðislegum leikreglum, er fyrst skoðað hvort stjórnmálaflokkarnir hafi sína menn til að fylgjast með því að allt sé í góðri reglu og eftir lýðræðislegum hefðum. Þar er þetta talinn kostur og trygging þess að sé farið að lýðræðinu. Þannig má fylgjast með því að á kjörstað sé ekki verið að nauðga lýðræðinu með einum eða öðrum hætti, eins og sagt hefur verið. Þetta er sem sagt trygging fyrir lýðræðinu en ekki nauðgun á því eins og hv. þm. heldur og margir misskilja í rauninni hjá íslenskum stjórnmálaflokkum.