Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:11:26 (4932)

2000-03-06 17:11:26# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., GAK (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson sagði úr þessum ræðustól að Frjálslyndi flokkurinn hefði þegið fjármuni af Íslenskri erfðagreiningu. Sem formaður þingflokks Frjálslynda flokksins fullyrði ég úr þessum ræðustól að það er rangt.

Ég fullyrði einnig að svokölluð kennitölusöfnun, til þess að láta Íslenska erfðagreiningu greiða fyrir upplýsingar í gagnagrunn, er ekki á vegum Frjálslynda flokksins og tengist honum ekki.

Annað vildi ég ekki segja og tel að þingmaðurinn hafi farið með rangt mál.