Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:34:45 (4937)

2000-03-06 17:34:45# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:34]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hingað til þess að taka undir með þeim þingmönnum sem hafa óskað eftir því að þessari umræðu verði frestað. Ástæðan eru þau ótrúlegu svigurmæli sem hæstv. forsrh. viðhafði í sinni fyrstu og einu ræðu í dag og beindust að almannasamtökum sem starfa hér á landi. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að þessi samtök hefðu í reynd misnotað sitt fé til þess að styðja einn tiltekinn stjórnmálaflokk.

Það hefur komið fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að þetta er ekki rétt og það hlýtur að vera eðlileg krafa okkar áður en þessari umræðu lýkur að hæstv. forsrh. finni orðum sínum stað hér úr þessum stóli og sýni fram á að sú fullyrðing sem hann setti fram um þessi samtök sé ekki úr lausu lofti gripin. Það er ekki hægt að láta þetta mál liggja hér eftir með þessum hætti.

Ég ætla mér ekki þá dul að ráða um of í mál hæstv. forseta en það kom fram að mér þótti vera vottur af skilningi hjá hæstv. forseta um að hann skildi nauðsyn þessa. Hæstv. forseti orðaði það svo að hér væri einungis um 1. umr. að ræða og ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi en svo að hann mæltist til þess að beðið yrði með frekari umræðu þangað til málið kæmi hingað aftur. En eins og hv. flm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert grein fyrir eru ákaflega litlar líkur á því að þetta mál komi hingað aftur.

Hæstv. forsrh. hefur sem talsmaður stjórnarliðsins lýst mjög harðri andstöðu sinni við málið og ég sé þess vegna engin rök til þess, herra forseti, að hægt sé að taka það aftur upp við síðari umræðu. Ég held að sú bón sem hér kemur fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sé fullkomlega eðlileg. Mér finnst þingsins vegna og sóma þess vegna að ekki sé hægt að láta svona ummæli liggja í loftinu án þess að hægt sé að hreinsa þetta upp. Þess vegna fer ég, herra forseti, fram á að umræðunni verði frestað annaðhvort þangað til hæstv. forsrh. getur komið aftur til þessa fundar eða þá til þess tíma síðar þegar okkur gefst tóm til þess að ræða þetta frekar við hæstv. forsrh. Þetta er eðlileg ósk af hálfu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og það hefur verið tekið undir hana af hálfu talsmanna annarra þingflokka. Ég held að það sé best að við förum þessa leið, herra forseti, til þess að hreinsa loftið vegna þeirra svigurmæla sem hér hafa fallið.