Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:51:24 (4996)

2000-03-07 14:51:24# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki veit ég hversu mikið vandamálið er og það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að í flestum tilvikum er samstarf tannsmiða og tannlækna mikið og náið. Þó eru til þeir einstaklingar sem vilja nýta hin stjórnarskrárbundnu réttindi sín, atvinnuréttindi, að starfa sem sjálfstætt starfandi tannsmiðir og það er ákveðinn og stjórnarskrárbundinn réttur sem er verið að verja með frv. En varðandi iðnað og iðnaðarstarfsemi almennt og tengsl iðnaðar við mannskepnuna, þá hygg ég að það sé ekkert eingöngu bundið við tannsmiði, þ.e. vegna þess að ef tannsmiði verður á kunni það að hafa slæm áhrif á heilsu einstaklingsins. Ég held að það gildi nú bara almennt um iðnað. Alvarleg mistök í matvælaiðnaði geta heldur betur haft áhrif á heilsufar neytandans, alvarleg mistök í hvaða iðnaði sem er. Iðnaður er jú mannanna verk og beinist að manninum sjálfum. (Gripið fram í.) Ég held að við hv. þm. séum ekki í neinum alvarlegum ágreiningi um þetta en við munum náttúrlega skoða þetta mjög gaumgæfilega út frá iðnaðar- og heilbrigðissjónarmiði í iðnn.