Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:07:54 (5001)

2000-03-07 15:07:54# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, KF
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Katrín Fjeldsted:

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að kveða upp neinn salómonsdóm hér og nú í því máli sem hér liggur fyrir, en það er frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða. Ég held að flestir tannsmiðir og flestir tannlæknar vinni ágætlega saman og að ekki sé ágreiningur þeirra í milli. Þetta mál kemur fyrst og fremst upp þar sem nokkrir tannsmiðir hafa orðið sér úti um þá viðbótarmenntun að telja sig klíniska tannsmiði og þurfi þess vegna svigrúm til að geta starfað sjálfstætt að sínu fagi.

Ég tek undir það sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagði fyrr í umræðunni, en það var að fleiri stéttir væru löggiltar hér á landi en víða annars staðar og kannski væri það eitthvað sem stjórnvöld þyrftu að taka upp ákveðnari stefnu um. Það er tilhneiging hjá flestum starfsstéttum eða mjög mörgum starfsstéttum að krefjast löggildingar. Það er aðferð sem ég vil kalla íslensku aðferðina og ég er ekki viss um að sé svo nauðsynleg þegar upp er staðið. En þetta hefur verið reynslan hér á landi. Að útkljá átök milli stétta með lögum er ein leið til að setja niður ágreining en það er auðvitað miklu betra að ná samkomulagi með viðræðum og á grundvelli einhverra raka sem menn geta fundið.

Ráðherra iðnaðarmála sem talaði fyrir frv. áðan taldi eðlilegt að leitað yrði eftir umsögn heilbr.- og trn. Ég kem fyrst og fremst í ræðustól til að taka undir mikilvægi þess. Það er nokkur munur á iðnaðarstétt og heilbrigðisstétt. Ef við lítum á það að tannsmiðir sem iðnaðarmenn hafa fram að þessu unnið í skjóli tannlækna og verið menntaðir fyrir tilstilli þeirra --- Tannsmiðaskólinn fór upphaflega þannig af stað --- þá sjá menn samt þennan greinilega mun þegar horft er á aðstöðu þessara aðila t.d. til þess að auglýsa sig. Tannlæknar hafa ekki heimild til að auglýsa þjónustu sína. En það gætu sjálfstætt starfandi tannsmiðir gert og auðvitað þarf að líta á slíkan samanburð um leið og aðrar hliðar þessa máls eru skoðaðar.

Mér finnst auðvitað eðlilegt að tannsmiðir með sömu klíniska menntun, reynslu, þekkingu og próf, geti starfað á sambærilegan hátt t.d. á öðrum Norðurlöndum, annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu eða Evrópusambandinu, hvaða viðmiðun sem við tökum. Ef menntunin er sambærileg og prófin sambærileg því að munnarnir eru svipaðir, kannski ekki í Súdan og Grímsnesinu, en a.m.k í okkar heimshluta.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Kristján Pálsson sem sagði áðan að tannheilsa Íslendinga væri með eindæmum góð. En það er nokkuð nýtilkomið. Ég man eftir því að fyrir um það bil 15 árum þegar ég var formaður heilbrigðisráðs Reykjavíkur sem hafði þá yfir skólatannlækningum að segja, var tannheilsa íslenskra skólabarna ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Borinn var saman tannskemmdafjöldi og úrdregnar og viðgerðar tennur í 12 ára börnum. Í nágrannalöndunum var meðaltalið kannski þrjár, fjórar eða fimm tennur eða eitthvað slíkt. Þar voru að meðaltali þrjár eða fjórar tennur skemmdar, viðgerðar eða horfnar úr 12 ára barni meðan meðaltalið var átta tennur á Íslandi. Þetta voru alveg hrikalegar tölur. Meðaltalið í Reykjavík á þessum tíma, þ.e. á árunum 1985 eða 1986 að mig minnir, var þá sex tennur. Sums staðar úti á landi voru þetta upp í 13 tennur. Og þetta er meðaltal. Vandamálið var því náttúrlega hrikalegt. Á því var tekið, fyrst og fremst með betri fyrirbyggjandi aðferðum, með betri næringu, með betri tannhirðu, með flúor sem þá var flúorburstun sem síðan var breytt yfir í flúorskolun. Fjölmargt hefur því orðið til þess á frekar skömmum tíma að tannheilsan hefur batnað. Það þýðir jafnframt að þeim fækkar til allrar hamingju sem missa tennurnar. Það þótti bara sjálfsagt mál í vissum plássum á landinu þegar ég var unglingur að fólk missti tennurnar jafnvel fyrir tvítugt og fengi sér stell. Þetta þekkja margir þingmenn, sérstaklega þeir sem eru grárri fyrir hærum en aðrir. En þetta vitum við að var svo. (Gripið fram í: Ég er með allar mínar tennur.) Má ég sjá? Þingmaðurinn segist vera með allar sínar tennur og það er gleðilegt.

Auðvitað þarf maður þess vegna að horfa á störf tannsmiða í samhengi við tannheilbrigðisþjónustu. Þó er það svo að þeirra starf telst iðn. Þeir eru ekki heilbrigðisstétt. Eins og ég nefndi í upphafi vildi ég því gjarnan hvetja til að frv. fari frá hv. iðnn. til heilbrn. til umsagnar. Ég vona að það verði hægt að ná einhverjum sáttum á milli tannlækna og tannsmiða vegna þess að þetta fólk á auðvitað að geta unnið saman sjúklingunum til framdráttar. Ég held að tannlæknar eins og aðrir læknar kalli skjólstæðinga sína gjarnan sjúklinga. Mér finnst það vera keppikefli okkar að tannsmiðir og tannlæknar geti unnið saman að þessu í sátt og samlyndi hvort sem tannsmiðirnir eru sjálfstæðir atvinnurekendur eða ekki.