Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 16:17:59 (5021)

2000-03-07 16:17:59# 125. lþ. 73.9 fundur 255. mál: #A hjúskaparlög# (ellilífeyrisréttindi) frv., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 321 hef lagt fram frv. til laga um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Katrín Fjeldsted, Drífa Hjartardóttir, Ásta Möller og Lára Margrét Ragnarsdóttir.

1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 2. tölul. 1. mgr. 102. gr. laganna bætist svohljóðandi málsliður: Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa á meðan hjónaband stóð, skulu þó ekki falla utan skipta.``

Í greinargerð segir svo, með leyfi forseta:

,,Frumvarp til laga um lífeyrisréttindi hjóna var lagt fram á 112., 113., 115., 116. og 117. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það var sama efnis og þetta frumvarp, að ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa í hjúskap, skuli teljast hjúskapareign þeirra og koma því jafnt til skipta verði slit á fjárfélagi hjónanna, en frumvarp þetta var áður flutt á 118., 120., 121. og 123. löggjafarþingi.``

Málið er því, herra forseti, nokkuð merkilegt fyrir það að vera nú flutt í tíunda sinn á hinu háa Alþingi.

,,Ný hjúskaparlög tóku gildi 1. júlí 1993 og er því lagt til að mælt verði fyrir um þetta atriði þar. Samkvæmt hjúskaparlögunum er eign hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars, sbr. 54. gr., og er þar m.a. átt við persónuleg réttindi að svo miklu leyti sem það brýtur ekki í bága við þær sérreglur sem um þau réttindi gilda, sbr. 57. gr. laganna. Um fjárskipti þessara réttinda eru ákvæði í 102. gr. en þar eru taldar upp þær hjúskapareignir sem geta fallið utan skipta að kröfu maka. Í frumvarpi þessu er lagt til að ellilífeyrisréttindi verði ekki talin þar með, þau séu hjúskapareign sem geti ekki fallið utan skipta.

Eins og nú háttar til eru ellilífeyrisréttindi beinlínis tengd þeirri persónu sem aflað hefur tekna og greitt af þeim iðgjald, enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjóna teljist hjúskapareign þeirra og henni sé skipt við slit hjúskapar. Eðlilegt er að litið sé á öflun ellilífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafa stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.

Það verður að teljast réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun ellilífeyrisréttinda þeirra, þ.e. að ekki skiptir máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins.

Samkvæmt lögum eru allir landsmenn, sem starfa á almennum vinnumarkaði, skyldaðir til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði. Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér, með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi, að þar myndast raunverulega mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Því er sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á þennan rétt sem sameiginlegan rétt eins og aðrar eignir.

Eins og fram hefur komið hefur frumvarp um þetta efni verið lagt fram áður.`` --- Níu sinnum áður á hinu háa Alþingi. --- ,,Oft hafa umræður og umsagnir um málið þó snúist meira um aðra þætti, eins og fjölmargar aðrar greiðslur frá lífeyrissjóðum en sjálfan ellilífeyrisréttinn sem kannski vonlegt er. Kemur þar einkum til skráning á greiðslum og áunnum réttindum í viðkomandi lífeyrissjóði sem nú tengjast einvörðungu þeirri persónu sem iðgjöld til viðkomandi lífeyrissjóðs eru greidd fyrir, svo og sá viðbótarréttur sem ávinnst við inngreiðslu, þ.e. örorkulífeyrir og barnalífeyrir. Þá er réttur til töku ellilífeyris mismunandi hjá lífeyrissjóðum. Hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er t.d. um að ræða svokallaða 95 ára reglu (þ.e. samanlagður aldur og starfsaldur), tengingu lífeyris við launaflokk viðkomandi, svo og niðurfellingu iðgjaldagreiðslna eftir 32 ár. Í Lífeyrissjóði sjómanna öðlast menn rétt til ellilífeyris 60 ára hafi þeir stundað sjómennsku í 25 ár. Þá veitir 20--25 ára starf á sjó rétt til ellilífeyristöku frá 61 árs aldri og frá 62 ára aldri eftir 15--20 ára starf á sjó.

Hér eru nefnd fáein dæmi um það flókna kerfi sem lífeyrissjóðir hafa komið sér upp, en fjölmörg dæmi væri einnig hægt að nefna þar sem löggjafinn hefur gripið inn í eða ákvarðanir eru teknar af stjórnum sjóðanna samkvæmt reglugerð.

Flutningsmenn gera sér fulla grein fyrir þeim vanda sem stjórnir fjölmargra lífeyrissjóða stæðu frammi fyrir væri ætlunin með frumvarpi þessu að rétturinn yrði allur sá sami hvað hjón varðar, þ.e. áunninn flýtiréttur til töku lífeyris, tímabundnar örorkubætur eða bætur fyrir langtímaörorku. Með frumvarpinu er hins vegar eingöngu gert ráð fyrir að við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skuli áunninn ellilífeyrisréttur greiddur til fyrrverandi maka miðað við inngreiðslur í viðkomandi sjóð á meðan hjúskapur stóð yfir og þá miðað við almennan lífeyrisaldur viðkomandi lífeyrissjóðs án tillits til flýtireglna. Að sjálfsögðu yrði viðkomandi lífeyrissjóður að taka upp skráningu lífeyrisréttinda með tilliti til þess sem að framan greinir. Ætla má að slík skráning yrði starfsmönnum lífeyrissjóða ekki erfið þegar litið er til tölvuvæðingar og mikils samstarfs og upplýsingaflæðis milli lífeyrissjóða í dag.

Eftir að frumvarp þetta var lagt fram á 121. löggjafarþingi hefur þó nokkuð miðað í þessum efnum. Þannig sendi allsherjarnefnd Alþingis, sem hafði málið til umfjöllunar, frá sér skýrslu (614. mál á 121. löggjafarþingi) þar sem fram kemur að nefndarmenn séu sammála um að nauðsynlegt sé að leysa úr því vandamáli sem upp kemur ef slit verða á fjárfélagi hjóna og aðeins annað þeirra hefur áunnið sér lífeyrisréttindi eða lífeyrisréttindi annars eru mun meiri en hins. Hins vegar taldi nefndin að kanna þyrfti ýmis atriði betur áður en lagabreyting í þessa átt væri afgreidd.

Á 122. löggjafarþingi voru afgreidd lög frá Alþingi um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Þar er nokkuð komið til móts við efni tillögu þessarar með ákvæði í 14. gr. Í lögunum kemur fram að sjóðfélagi getur á grundvelli samkomulags við maka sinn tekið ákvörðun um, í fyrsta lagi, að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Í öðru lagi að í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka. Í þriðja lagi að iðgjald vegna hans sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Nær slíkt samkomulag eftir því sem við á til ellilífeyrisgreiðslna, verðmætis ellilífeyrisréttinda eða ellilífeyrisréttinda beggja aðilanna og felur í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda meðan hjúskapur, óvígð sambúð eða staðfest samvist hefur staðið eða stendur.

Flutningsmenn frumvarpsins telja að með þessum nýmælum í lögum nr. 129/1997 sé stigið skref í rétta átt, en vilja ganga lengra og því er það lagt fram að nýju.``

Ég lagði viljandi, herra forseti, áherslu á þau ákvæði að hjón þurfi að ákveða með sjö ára fyrirvara hvernig skuli farið með skiptingu lífeyrisréttinda. Það er með ólíkindum að þetta skuli vera haft þannig því að það nánast segir að hjón sem taka ákvörðun um að slíta fjárfélagi væflist með það í sjö ár. Það er nú varla svo. Ég held að það hljóti að líða skemmri tími.

Herra forseti. Vegna þessa máls hafa fjölmargir aðilar haft samband við mig sem fyrsta flutningsmann og fjölmarga meðflutningsmenn mína að þessu frv. Ég vitna til eins mæts lögmanns hér í bæ, Svölu Thorlacius, sem skrifaði m.a. grein um þetta vandamál í Morgunblaðið. Hún segir svo, með leyfi forseta:

,,Einn er sá þáttur í allri þessari umræðu, sem lítið hefur farið fyrir en það er sá vandi sem upp kemur varðandi ellilífeyri hjóna, sem skilja. Eins og löggjöfin er nú er gert ráð fyrir að ellilífeyrisréttindi maka séu í reynd séreign hans og komi ekki til skipta við hjónaskilnað. Það liggur í augum uppi hvert ranglæti þetta er þar sem iðgjaldagreiðslur hjónanna koma úr sameiginlegum sjóði heimilisins og eru þar með greiddar af báðum hjóna að jöfnu sé notuð helmingaskiptaregla sú sem almennt er lögð til grundvallar við skipti á eignum hjóna.``

Hún segir einnig, með leyfi forseta:

,,Til að skýra mál mitt skal tekið eftirfarandi tilbúið en raunhæft dæmi.

[16:30]

Hjónin M og K giftu sig um tvítugt og voru 55 ára gömul þegar til hjónaskilnaðar kom. Þau eiga fjögur börn. Konan, K, var heimavinnandi húsmóðir þar til yngsta barnið var komið á legg og fór þá að vinna hálfan daginn í láglaunastarfi. Maðurinn, M, fékk hins vegar fljótlega eftir giftingu þeirra vel launað starf og hóf strax að greiða í lífeyrissjóð. K var vitanlega sátt við það þar sem hún leit svo á að þar með væri verið að tryggja þeim báðum lífeyri á efri árum. Síðan kynntist M nýrri konu og krafðist skilnaðar frá K.

Við skilnaðinn kom í ljós að lífeyrisréttindi M voru margfalt hærri en lífeyrisréttindi K en réttur þessi er í raun séreign M og kom ekki til skipta.``

Fleiri dæmi mætti draga upp. Hún er ekki sú eina, þessi virðulegi lögmaður, sem komið hefur inn á þessi mál. Fjölmargir aðrir lögmenn hafa staðið frammi fyrir þessum vanda og lagt ofurkapp á að þetta mál nái fram að ganga enda eru ákvæði lífeyrissjóðanna um sjö ára tilkynningarskyldu áður en hjón skilja náttúrlega með ólíkindum. Eins og ég sagði áðan er venjulega ekki sjö ára aðdragandi að því er hjón ákveða að slíta fjárfélagi. Þó hér hafi miðað nokkuð í rétta átt með lög um starfsemi lífeyrissjóðanna þá vantar þó nokkuð upp á.

Það er líka nokkuð athyglisvert, herra forseti, að til okkar flutningsmanna þessa frv. má segja að hafi streymt samþykktir 41 kvenfélags og kvenfélagasamtaka um allt land. Þar hefur verið hvatt til að tekið verði á þessum málum. Ég er með hluta af þeim bunka sem borist hefur víða að af landinu.

Herra forseti. Ég held að það sé tímabært, þó að margir hafi talað um að vandinn væri margvíslegur og jafnvel óyfirstíganlegur hvað þetta áhrærir, að með þessari framsetningu flytjenda frv. verði hægt að taka mið af því sem ég sagði áðan. Það er ekki verið að lögleiða neina flýtireglu lífeyrissjóðanna, ekki að örorkuþátturinn sé tekinn inn í þetta mál, heldur hrein skipti sem komi til greiðslu þegar ellilífeyrir er tekinn. Mér þykir rétt að skerpa á því að í 95. gr. hjúskaparlaga segir, með leyfi forseta, um fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita o.fl.:

,,Hjón geta ráðið fjárskiptum sínum vegna skilnaðar til lykta með samningi. Fjárskiptasamningur skal vera skriflegur og undirritaður af hjónum eða umboðsmönnum þeirra. Samning þennan skal staðfesta fyrir sýslumanni eða dómara. Nú eru hjón eignalaus og skal þá yfirlýsing þeirra þar að lútandi staðfest af þeim eða umboðsmönnum þeirra fyrir sýslumanni eða dómara eftir því hvar skilnaðarmálið er til meðferðar.

Nú hafa hjón vegna væntanlegs skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar gert samning um fjárskipti sín og er þá unnt að fella hann úr gildi að nokkru eða öllu með dómi ef hann var bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma er til hans var stofnað.``

Þetta er ekki einu sinni tryggt þó að gengið sé frá þessu máli með ákveðnum fyrirvara.

Ég vitnaði til fjölmargra félagasamtaka sem hafa sent okkur flutningsmönnum áskoranir um að fylgja málinu fast eftir svo lyktir verði á málinu og ekki þurfi að koma til flutnings í ellefta sinn á hinu háa Alþingi. Því verður náttúrlega ekki hægt að lofa. Það segir ekki alla söguna þó þetta frv. hafi mörgum sinnum verið lagt fram.

Í samantekt sem ég fékk hjá lögmanni um þetta mál segir að eina almenna ákvæðið sem taki til skiptingu lífeyrisréttinda hjóna við hjúskaparslit þeirra sé að finna í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997. Þetta er því eina ákvæðið í gildandi lögum sem gæti vikið til hliðar ákvæðum 2. tölul. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga með því að annar háttur yrði hafður á en þar frá greinir. Þó ber þess að geta að í 3. mgr. 14. gr. felst ekki regla sem farið verður eftir með fjárskipti hjóna við hjúskaparslit heldur fyrst og fremst regla sem gilda mun um ákvörðun réttinda maka sjóðfélaga ef samkomulag þeirra í milli er gert þar um. Hjúskaparslit munu ekki hreyfa við því samkomulagi. Ákvæði 3. mgr. 14. gr. er svohljóðandi:

,,1. Að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Viðkomandi lífeyrissjóður skal þá skipta greiðslum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans, en þær falla niður við andlát hans. Deyi makinn eða fyrrverandi maki sem nýtur slíkra greiðslna hins vegar á undan sjóðfélaganum skulu greiðslurnar allar renna til sjóðfélagans.

2. Í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum, að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur. Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans.``

Lögmaðurinn segir að í íslenskri löggjöf sé ekki að finna nein ákvæði sem leiði til að skylt sé að taka réttindi annars hvors hjóna eða beggja í lífeyrissjóðum til skipta. Hann telur að slíkt verði einungis gert með samkomulagi beggja. Ljóst er því að reglur þær sem gilda um fjárskiptingu hjóna og skiptingu lífeyrisréttinda þeirra eru frábrugðnar þeim reglum sem mundu gilda ef þetta mál, sem nú er flutt á þinginu, yrði að lögum. Sú regla sem frv. felur í sér mundi tryggja að lífeyrisréttindi hjóna hefðu komið til skipta.

Íslensk löggjöf byggir hins vegar á því eins og hér hefur verið rakið að þessum réttindum verður haldið utan við skipti nema til komi samkomulag hjóna samkvæmt 95. gr. hjúskaparlaga eða samkvæmt 14. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem kom til framkvæmda 1. janúar 1999. Reglan í frumvarpstextanum er miklu afdráttarlausari en þær reglur sem gilda í dag.

Í íslenskri löggjöf er einnig að finna heimildarákvæði til þess að skipta lífeyrisréttindum hjóna milli þeirra við hjúskaparslit og þá með samkomulagi sem ýmist er gert við fjárskipti, sbr. 95. gr. hjúskaparlaga, eða á fyrri stigum, sbr. fyrri mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997.

Herra forseti. Ég tel að hér sé hið þarfasta mál á ferðinni og svo hafi verið þau níu þing sem þetta mál hefur verið lagt fram áður. Að svo mæltu hef ég ekki fleiri orð um þetta mál en óska eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn. Ég vænti þess að þar fái málið efnislega og góða meðferð. Mér býður í grun að starfsmenn allshn. hafi nú í nokkur ár haft málið til skoðunar. Ég man ekki betur en að á einu þinginu hafi þeim verið falið að vinna frekar úr þessu máli enda sat þá hæstv. núv. dómsmrh. í virðulegri allshn. sem formaður. Hún stýrði þar málum af miklum skörungsskap eins og hennar er von og vísa. Þess vegna vona ég að málið verði nokkuð léttara til úrvinnslu hjá þeirri nefnd er nú situr.