Samræmd slysaskráning

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:48:50 (5029)

2000-03-08 13:48:50# 125. lþ. 75.3 fundur 333. mál: #A samræmd slysaskráning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin og þeim sem tóku þátt í umræðunni fyrir athugasemdir þeirra. Það er ljóst að markvissar aðgerðir til að fækka slysum eru fljótar að skila sér til baka til þjóðfélagsins í bættri heilsu, minni þjáningum, minni heilbrigðiskostnaði og lægri iðgjöldum trygginga svo fátt eitt sé nefnt.

Þeir sem eru vel að sér í slysavörnum fullyrða að hægt sé að fyrirbyggja flest slys. Þar er nefnt 90% markið. Þá segja þeir einnig að eitt slys sé einu slysi of mikið. Það er mikilvægt að unnið verði markvisst að fækkun slysa á börnum og unglingum, fækkun vinnuslysa, umferðarslysa, slysum á sjó, á heimilum, í skólum, íþróttum og öðru tómstundastarfi. Ein forsenda þess að hægt verði að ná markmiðum um fækkun slysa er samræmd slysaskráning og samvinna þeirra sem vinna að slysavörnum.

Ég vil í þessu sambandi benda á að ýmsar upplýsingar benda til að aukning sé á slysum hér á landi. Slysum í heimahúsum fjölgaði um 17% á síðasta ári. Umferðarslysum fjölgaði um 20--30% á síðasta ári og þá mest á höfuðborgarsvæðinu.

Í tengslum við aðra fyrirspurn sem liggur fyrir í þinginu frá mér um skotelda fékk ég í hendur skýrslu frá breskum heilbrigðisyfirvöldum um slys af völdum skotelda á árinu 1998. Þar voru öll slík slys skráð, hvers eðlis þau voru, hvers konar skoteldar ollu skaða, í hvaða umdæmi og sjúkrahús viðkomandi leitaði og afdrif viðkomandi auk lýðfræðilegra upplýsinga, aldur og kyn viðkomandi og fleiri atriði. Slík skýrsla er lögð til grundvallar mati og stefnumótun breskra stjórnvalda varðandi skotelda, öryggi þeirra og reglur um aðgengi og umgengni. Slíkt er til fyrirmyndar og ég hlakka til að sjá sams konar skýrslur hér á landi.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. heilbrrh. felur samræmd slysaskráning í sér að margir ólíkir aðilar sem vegna starfsemi sinnar skrá slys skrái gögn sín í sameiginlegt skráningarkerfi. Markmið með samræmdri slysaskrá er að allar nauðsynlegar upplýsingar um slys séu skráðar í sama grunn svo hægt sé að vinna úr og draga lærdóm af þeim til að fyrirbyggja slys í framtíðinni. Þess vegna fagna ég því að þetta er komið á þann rekspöl sem lýst var hér áðan.