Skattlagning á umferð

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:13:01 (5042)

2000-03-08 14:13:01# 125. lþ. 75.2 fundur 369. mál: #A skattlagning á umferð# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. nokkurra atriða sem varða skattlagningu á umferð. Fyrri spurningin lýtur að því hvort í starfi sé á vegum fjmrn. eins og þar segir eitthvert starf sem miði að því að endurskoða skattlagningu á umferð, t.d. á tolla, bifreiðagjöld, vörugjöld, bensíngjöld eða þungaskatt og aðra skattheimtu á þessu sviði, þ.e. sem tengist umferð með einhverjum hætti með tilliti til umhverfissjónarmiða.

Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að mikilvægt sé, herra forseti, að fara yfir þetta svið í heild sinni og reyna að móta hér með sambærilegum hætti og gert hefur verið víða erlendis einhverja samræmda stefnu sem fylgt sé við skattlagningu á hina ólíku þætti umferðar og innbyrðis samræmi eða hlutföll í þessum efnum fellt með einhverja slíka umhverfismeðvitund að leiðarljósi. Eins og ég segi er það orðið erlendis viðurkennt að með slíkum skattalegum aðgerðum er unnt að stýra og hafa talsverða áhrif á þróun í þessum efnum. Nærtæk dæmi eru skattlagning almenningssamgangna annars vegar eða ívilnandi aðgerðir til að ýta undir þróun almenningssamgangna annars vegar á móti skattlagningu á einkabíla og aðra umferð sem er þó síður ástæða til að ýta undir.

Skattlagningu mismunandi samgönguþátta er einnig beitt gjarnan með það að leiðarljósi að ýta undir samgöngur og t.d. þungaflutninga á sjó og með járnbrautum fremur en á vegum o.s.frv. Ég lýsi eftir því hvort eitthvert slíkt starf sé í gangi á vegum fjmrn. eða hver séu viðhorf hæstv. fjmrh. í þeim efnum, hvort hæstv. ráðherra teldi koma til greina að setja slíkt starf í gang með skipan starfshóps eða einhverjum öðrum hætti.

Seinni liður fyrirspurnarinnar lýtur að því atriði sérstaklega hvort sá möguleiki hafi verið kannaður í ráðuneytinu að sameina gjaldtöku fyrir skyldutryggingu ökutækja, t.d. innheimtu á bensíngjaldi og þungaskatti. Hér er ég reyndar að varpa fram hugmynd sem var gaukað að mér af ágætum hugvitsmanni. Ef það reyndist framkvæmanlegt og menn gætu leyst vandamál sem hugsanlega teldust koma upp í þessu sambandi og vörðuðu samkeppnislög eða annað slíkt, má vel sjá fyrir sér að sjá slíkt fyrirkomulag hefði í för með sér mikla einföldun og sparnað og þau réttlætisrök væru fyrir hendi að iðgjöldin greiddust þá hlutfallslega miðað við notkun tækjanna í gegnum eldsneytisnotkunina sem væri skattaandlagið í því tilviki. Nú verður fróðlegt að heyra svör hæstv. fjmrh. hvort hann sér þetta sem áhugaverðan eða mögulegan kost.