Skattlagning á umferð

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:19:29 (5044)

2000-03-08 14:19:29# 125. lþ. 75.2 fundur 369. mál: #A skattlagning á umferð# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka þetta mál upp. Við í Samfylkingunni höfum stutt það og lagt til að farið verði í heildarendurskoðun á skattlagningu á umferð með tilliti til umhverfissjónarmiða og skattlagningunni breytt. Þess misskilnings hefur að vísu gætt hjá hv. þm. Sjálfstfl., sem stýrir því kannski að menn hafa ekki viljað fara í endurskoðunina, að slík endurskoðun muni leiða af sér hærri skattlagningu. Þannig er það ekki.

Mér þykir leitt að heyra hjá hæstv. ráðherra að ekki eigi að fara í heildarendurskoðun á skattlagningu umferðarinnar, með tilliti til umhverfissjónarmiða en ekki síður vegna þess að nú er eldsneytisverð í sögulegu hámarki. Mikil umræða hefur átt sér stað um skattlagninguna og það er þörf á að fara í þessa endurskoðunarvinnu.