Vatnsveitur í dreifbýli

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:06:51 (5065)

2000-03-08 15:06:51# 125. lþ. 75.7 fundur 354. mál: #A vatnsveitur í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er ráðherrann tilbúinn að gera.

Lög um aðstoð til vatnsveitna voru samþykkt 1947. Á grundvelli þeirra styrkti ríkissjóður vatnsveituframkvæmdir á þéttbýlissvæðum og gilti sú tilhögun til ársins 1989 þegar verulegar breytingar voru gerðar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Frá ársbyrjun 1990 yfirtók Jöfnunarsjóður sveitarfélaga þessa styrki á grundvelli breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Varðandi vatnsveitur til heimilis- og búsþarfa í sveitum þá voru ákvæði í jarðræktarlögunum um skyldur ríkisins til greiðslu framlaga vegna þessara vatnsveitna. Búnaðarfélag Íslands hafði með úthlutun þessara framlaga að gera, svo og eftirlit með framkvæmdum. Fyrir nokkrum árum fór að gæta mikillar tregðu með fjármagn til þessara framlaga eins og annarra framlaga sem tengdust einhvern veginn landbúnaði öðruvísi en í gegnum skógrækt eða landgræðslu og þessi framlög voru alveg felld niður, sem er náttúrlega ómögulegt fyrirkomulag. Ég beitti mér fyrir breytingum á reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem tók gildi í janúar 1999 þannig að heimilt væri að greiða úr honum framlög til vatnsveitna í sveitum. En eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Árna Steinars Jóhannssonar, eru verulegir annmarkar á því að gera þetta í gegnum sveitarfélögin, koma þessum framlögum til réttra aðila með milligöngu sveitarfélaganna. Ég hef því ákveðið að leggja til við tekjustofnanefndina, og er reyndar búinn að því, að við endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði heimilt að greiða þessi framlög með milligöngu Bændasamtakanna. Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna hefur ekki heimild til að greiða öðrum en sveitarfélögunum. En ég óska eftir því að opnað verði fyrir heimild til þess að greiða þessa upphæð í einu lagi til Bændasamtakanna, sem síðan tækju að sér að koma framlaginu til réttra aðila samkvæmt mælingu þar að lútandi þegar úttekt verður á framkvæmdum. Það er alveg óviðunandi að ekki gildi jafnræði um aðstoð í þessu efni við vatnsveiturnar. Ég vil stefna að því að það verði 50% styrkur á kostnaði við upptökuvirki, aðveitur og miðlunartanka.