Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 16:50:05 (5160)

2000-03-09 16:50:05# 125. lþ. 76.6 fundur 287. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# (fyrirsvar eignarhluta ríkisins) frv., GuðjS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Guðjón Sigurjónsson:

Herra forseti. Umræðan um þetta frv. hefur að miklu leyti einkennst af því, eins og kom fram í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, að þingmenn Samfylkingarinnar séu að gera ráðherra og Landssímann tortryggilegan. Hins vegar hafa í umræðunni ekki komið fram svör við þeim vangaveltum sem ég velti hér upp um hvaða rök liggja að baki því að vikið sé frá meginreglunni sem fram kemur í reglugerð um Stjórnarráð Íslands um að fjmrn. fari með eignir ríkisins.

Ég vek athygli á því að í máli hv. þm. Halldórs Blöndals kom fram að í nútímaþjóðfélagi væri það grundvallaratriði að samskiptatækni væri góð, það var eitthvað í þá veru sem hann mælti. Ég vek jafnframt athygli á því að í nútímaþjóðfélagi er grundvallaratriði að stjórnsýsluhættir séu vandaðir og að almennum stjórnsýslureglum sé fylgt. Þess vegna spyr ég aftur, eins og ég kom að í fyrri ræðu minni, hvaða rök mæla gegn því að framangreindri umræddri meginreglu verði fylgt? Ég minni í því sambandi á almenn sjónarmið sem fylgt er í stjórnsýslunni um hæfisskilyrði og álit samkeppnisráðs, sem hér hefur verið fjallað um, byggir öðrum þræði á, þ.e. að í þeim tilvikum þar sem hætta er á að tengsl yfirmanns eða tengsl fulltrúa stjórnvalds við fyrirtæki geti skapað tortryggni og geti gert það að verkum að ákvarðanir hans séu ógildar vegna vanhæfis, að þau sjónarmið eiga við um þessa meginreglu líka.

Ég spyr jafnframt og kannski með öfugum formerkjum, hvaða rök mæla gegn því að fjmrh. sé veitt þetta vald? Það hefur ekkert komið fram í umræðunni sem lýtur að þessum meginspurningum sem frv. öðrum þræði byggir á. Og síst af öllu fæ ég séð í þessari umræðu hvaða tengsl eru á milli þess að krafist sé að farið verði að umræddri meginreglu og þess sem haldið hefur verið fram af þingmönnum Sjálfstfl., að verið sé að vega á einhvern hátt að Landssímanum. Þetta frv. er þvert á móti þannig vaxið að verið er að byggja undir traust og trúverðugleika fyrirtækisins.