Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 15:15:41 (5169)

2000-03-13 15:15:41# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Það eru einkum tvær ástæður fyrir því að þetta frv. er flutt, annars vegar flutningur málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem fyrirhugaður er og hins vegar endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Ég skipaði nefnd 27. ágúst 1997 til þess að semja frv. til nýrra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í nefndina voru skipuð alþingismennirnir Arnbjörg Sveinsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson og Siv Friðleifsdóttir, án tilnefningar, en samkvæmt tilnefningum voru skipuð Bjarni Kristjánsson, þáverandi framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík, tilnefndur af framkvæmdastjórum málefna fatlaðra, Gerður Steinþórsdóttir framhaldsskólakennari, tilnefnd af Landssamtökunum Þroskahjálp, Helgi Seljan framkvæmdastjóri, tilnefndur af Öryrkjabandalagi Íslands, Jón Björnsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólöf Thorarensen félagsmálastjóri, tilnefnd af Samtökum félagsmálastjóra. Formaður nefndarinnar var Árni Gunnarsson, sem þá var aðstoðarmaður minn. Starfsmenn nefndarinnar voru Ingibjörg Broddadóttir og Þorgerður Benediktsdóttir, deildarstjórar í félagsmálaráðuneyti. Sú breyting varð á skipan nefndarinnar að Bjarni Kristjánsson óskaði lausnar frá starfi í nefndinni haustið 1998 og í stað hans tók sæti Soffía Lárusdóttir, framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi. Jafnframt varð sú breyting að vegna fjarveru Ingibjargar Broddadóttur frá hausti 1998 til vors 1999 var Guðrún Ögmundsdóttir, deildarstjóri í félagsmálaráðuneyti, skipuð sem annar af tveimur starfsmönnum nefndarinnar.

Samkvæmt framansögðu voru laganefnd ætluð þrenns konar verkefni:

1. Að semja frumvarp til nýrra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

2. Að huga sérstaklega að réttindagæslu fatlaðra.

3. Að semja frumvarp um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Fljótlega kom nefndin sér saman um að hentugra væri að kalla fleiri til verks og Margrét Margeirsdóttir, deildarstjóri í félmrn. og Soffía Lárusdóttir, framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi, og Stefán Hreiðarsson, yfirlæknir Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, sömdu frv. um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem er fylgifrv. þessa máls en er því miður ekki komið inn í þingið en kemur á næstu dögum.

Ákveðið var á sínum tíma að færa málefni fatlaðra til sveitarfélaganna, það sem ekki væri á landsgrundvelli. Rökin fyrir því að þjónusta við fatlaða skuli vera viðfangsefni sveitarfélaga en ekki ríkis eru margþætt en fyrst og fremst er um að ræða sjónarmiðin um nærþjónustu annars vegar og jafnrétti og blöndun fatlaðra og ófatlaðra hins vegar.

Opinber þjónusta á Íslandi er ýmist veitt af ríki eða sveitarfélögum. Sveitarstjórnarstigið stendur þegnunum nær en ríkisvaldið og því tekur verkaskipting ríkis og sveitarfélaga m.a. mið af því. Almennt hefur sveitarfélögunum verið falin ábyrgð þeirra verkefna þar sem miklu skiptir að tekið sé tillit til staðbundinna eða einstaklingsbundinna þátta. Þetta eru rökin fyrir því að félagsþjónusta er viðfangsefni sveitarfélaga en ekki ríkis.

Fatlaðir eru ekki einir um að þarfnast þjónustu til þess að fá notið eðlilegs lífs. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Í lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um hvernig þeim markmiðum skuli náð.

Varðandi yfirfærsluna hafa heildarsamtök fatlaðra, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp stutt yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og Landssamtökin Þroskahjálp höfðu vissa forgöngu um að koma umræðunni af stað og gerðu samþykkt, m.a. á landsþingi 4. apríl 1992. Fyrsta ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga um yfirtöku á málefnum fatlaðra var gerð á 15. landsþingi sambandsins haustið 1994.

Eins og fram hefur komið er þessu frv. ætlað fremur öðru að fella saman lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög um málefni fatlaðra. Jafnframt eru lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga endurskoðuð en gert var ráð fyrir því við gildistöku þeirra vorið 1991 að það skyldi gert að fimm árum liðnum.

Fyrir utan samruna þessara laga eru helstu einkenni frv. að skyldur sveitarfélaga eru skerptar og má segja að í frv. felist að verulega sé skerpt á skyldum sveitarfélaga til að veita íbúum sínum félagsþjónustu. Tilgangurinn er sá að félagsþjónustan verði ótvírætt jafnvíg annarri velferðarþjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Þannig er sveitarfélögunum skylt að veita þá þjónustu sem frv. tilgreinir þótt þau hafi sjálfsákvörðunarrétt um útfærslu þjónustunnar.

Þá má geta þess að langveik börn fá samkvæmt frv. sömu þjónustu og fötluð börn. Ég legg mjög ríka áherslu á þetta atriði því það er mjög mikilvægt. Verið er að veita langveikum börnum sama rétt og hinum fötluðu og sömu möguleika til aðstoðar. Langveik börn hafa með vissum hætti verið sett hjá en nú er ætlunin að bæta úr því, bæði með þessu og eins með öðrum ráðstöfunum sem snerta þau og ríkisstjórnin hefur mótað stefnu í málefnum langveikra barna sem mun verða kynnt af viðkomandi ráðherrum innan örfárra daga.

Verkefni félmrn. eru ítarlegar tilgreind í frv. en nú er og hverjar skyldur ríkisvaldsins eru við framkvæmd laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Frv. gerir ráð fyrir að þar sem markmiðum laganna verði ekki náð á annan hátt, t.d. vegna fámennis sveitarfélaga, þá skuli þau sameinast um þjónustuna. Sveitarfélögunum er gert skylt að hafa á að skipa hæfu og menntuðu starfsfólki í félagsþjónustu. Frv. hefur að geyma reglur sem ætlast er til að framkvæmd félagsþjónustunnar grundvallist á og reglur þessar má líta á sem siðferðilega undirstöðu framkvæmdarinnar. Þannig er gert ráð fyrir að borin sé virðing fyrir þörfum einstaklingsins og sjónarmiðum hans.

Í núgildandi lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna lagaákvæði um skyldur sveitarfélaga í leikskólamálum, einkum er varðar uppbyggingu leikskólans. Samhliða félagsþjónustulögunum samþykkti Alþingi á sínum tíma lög um leikskóla þar sem önnur sjónarmið voru lögð til grundvallar. Í þeim er gert ráð fyrir að leikskólinn sé fyrsta skólastig barnsins og heyri því undir menntakerfi. Áhrif leikskólalaganna urðu þau að smám saman færðust málefni leikskólans undir skólaskrifstofur sveitarfélaganna og því er hann ekki lengur hluti af skipulagðri félagsþjónustu. Af þessum ástæðum er nú lagt til að ákvæði laganna um skyldur sveitarstjórna til að annast byggingu og rekstur leikskóla og tryggja eftir föngum framboð á leikskólarými verði felld brott. Um það efni gildi lög um leikskóla.

Þess má geta að áformað er að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga taki tillit til langveikra barna í leikskólum með sama hætti og fatlaðra barna.

Í frv. er gert ráð fyrir að hægt sé að bjóða út þjónustu og einstök rekstrarverkefni. Þó að félagasamtökum og einkaaðilum hafi ekki enn sem komið er verið falin mörg verkefni á ábyrgð sveitarfélaga þá er líklegt að þróunin verði í þá átt. Í frv. er skotið enn styrkari stoðum undir úrskurðarnefnd um félagsþjónustu með því að gera verkefni hennar rýmri. Framkvæmdasjóður fatlaðra verður lagður niður við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og þar með samruna málefna fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga. Er einsýnt að hlutverki framkvæmdasjóðsins er lokið og verkefni hans verða ein af verkefnum félagsþjónustu sveitarfélaga eins og aðrar skyldur á þeim vettvangi. Einnig má benda á að þær breyttu áherslur í frv. sem fela í sér þjónustu sem tekur mið af einstaklingsþörfum og blöndun fatlaðra og ófatlaðra hníga í sömu átt.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir nýjum vistheimilum sem leið í húsnæðismálum fatlaðra. Atvinnumálum fatlaðra er fyrirhugað að skipa undir Vinnumálastofnun og atvinnumál fatlaðra flokkast ekki undir félagsþjónustu í frv. þessu. Þó skal tekið fram að hæfing, iðja og þjálfun sem nú eru felldar undir atvinnumál fatlaðra samkvæmt lögum um málefni fatlaðra eru hér flokkaðar sem félagsþjónusta og teljast því ein grein hennar.

Herra forseti. Ég hef hugsað mér að leggja til þá málsmeðferð að að lokinni 1. umr. í dag verði málinu vísað til hv. félmn. Ég mun fara þess á leit við hv. félmn. að hún sendi málið til umsagnar en afgreiði það ekki í vetur. Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál, sem er vandasamt og viðkvæmt, fái vandaða meðferð og mjög mikilvægt er að takist að setja saman lagabálk sem getur staðið til framtíðar.

Mér er ljóst að frv. er ekki fullkomið í gerð sinni og ég lít svo á að nauðsynlegt sé að það fái ítarlega umræðu í þjóðfélaginu, meðal sveitarstjórnarmanna, meðal samtaka fatlaðra og annarra þeirra sem að málinu þurfa að koma og síðan verði hægt að vinna úr umsögnum og afgreiða frv. á haustþingi næsta vetur.

Eins og ég sagði áðan fylgja þessi máli fylgifrv., í fyrsta lagi frv. sem hér er á dagskrá um réttindagæslu fatlaðra, í öðru lagi frv. um Greiningar- og ráðgjafarstöðina og í þriðja lagi frv. um starfsfræðslu fatlaðra og væntanlega þarf að breyta líka lögum um atvinnumál fatlaðra, sem ber að skoða sem fylgifrv. þessa frv.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. félmn. að lokinni þessari umræðu í dag.