Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 15:51:37 (5172)

2000-03-13 15:51:37# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal með mikilli ánægju skýra þetta út fyrir hv. þm. Ástu Möller. Þegar ég tala um leitarstarf þá meina ég leitarstarf í unglingamálum eins og praktíserað hefur verið á öllu höfuðborgarsvæðinu. Þá er unnið með skólum og æskulýðsmiðstöðvunum eins og verið hefur í Reykjavík. Kannski mætti kalla það unglingaleitarstarf á hjólum. Við þekkjum leitarstarfið sem verið hefur hér í miðbænum til langs tíma. Þetta er spurning um að útvíkka það yfir í hverfin og setja þetta þarna inn. Þetta eru raunhæfar aðgerðir varðandi þennan aldurshóp. Þetta hefur verið gert sem átaksverkefni í ýmsum hverfum og á landsbyggðinni og hefur gefist alveg gríðarlega vel.