Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 18:01:13 (5186)

2000-03-13 18:01:13# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[18:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þori nú kannski ekki að svara alveg fyrir tilurð þessa orðalags hér og nú nema geta borið það saman við eldri lög. Eitthvað af þessum heimildum er tekið upp úr eldri lögum ef ég veit rétt. Slíkar heimildir voru í lögunum sem hv. 5. þm. Reykv. stóð fyrir að sett voru hér á árum áður og þó að þeim hafi ekki verið beitt þá hefur það ekki verið fellt út þrátt fyrir það. Ég held að þetta sé bara einhver arfur frá henni sem ekki stendur til að beita neitt sérstaklega núna.

Varðandi sólarhringsstofnanirnar þá erum við ekki að framlengja líf þeirra. Við búum að vísu við sólarhringsstofnanir enn þá í nokkrum tilfellum en við erum að reyna að hverfa frá því skipulagi. Samkvæmt ákvörðun lækna verða að vísu áfram 25 einstaklingar á Kópavogshælinu en við erum ekki að framlengja skipulag sólarhringsstofnana.

Við höfum búið við sambýlapólitíkina um nokkurt skeið og lagt höfuðkapp á það. Nú virðist krafan vera sú að koma í sérbýli því fólki sem mögulega getur séð um sig með þjónustu og húshjálp. Ég held að það verði næsta skref og að því þurfum við að vinna. Það er ekki svo fjarstætt því að kostnaðurinn við sambýlin er orðinn svo gífurlegur. Kostnaður fyrir fyrir einstakling á nýbyggðu sambýli er orðinn hærri en kostnaður við litla íbúð.