Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 18:05:25 (5188)

2000-03-13 18:05:25# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[18:05]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að mér vannst ekki tími til að svara nema sumu af því sem ég hef verið spurður að. Varðandi Umhyggju þá tel ég sjálfgefið að hlustað verði á óskir eða skoðanir þeirra samtaka. Meiningin er að langveik börn fái sömu þjónustu. Eins og ég sagði í upphafi munum við alveg á næstunni kynna stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna. Þar er stefnan útfærð nákvæmlega og skipulega.

Varðandi geðfatlaða munu þeir að sjálfsögðu eiga skjól í þessum lögum eins og í lögunum um málefni fatlaðra svo og aðrir, heyrnarskertir, sjónskertir o.s.frv.

Varðandi kostnaðinn þá er takmarkið ekki að gera þessa þjónustu dýrari eða láta þjónustuþegana greiða meira en þeir hafa gert.