Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 19:04:51 (5195)

2000-03-13 19:04:51# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[19:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál eða lengja þessa umræðu, aðeins örfá atriði.

Í fyrsta lagi kom fram í máli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur að fram hefur komið frá hendi ýmissa sem hafa tjáð sig um þetta mál að menn vantreystu sveitarfélögum til að rísa undir þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að þau axli. Ég held að nær lagi væri að segja að menn vantreysti ríkisvaldinu að standa við bakið á þeim þegar til lengri tíma er litið og að þrátt fyrir hugmyndir um samlag og samvinnu sveitarfélaga í þessum efnum muni þau ekki ráða við þessi verkefni.

Varðandi gjaldtökuna vil ég ítreka áhyggjur mínar út af því. Hér hefur komið fram við umræðuna að ekki sé gert ráð fyrir því að íþyngja fötluðum við þessar breytingar og í því sambandi m.a. vísað til grg. um 29. gr. frv. þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Við beitingu á gjaldtökuheimild samkvæmt frumvarpinu er á hinn bóginn gert ráð fyrir að sveitarstjórnir taki mið af því hvernig málum þessum er nú háttað í lögum, enda hefur ávallt verið gengið út frá því að hagur fatlaðra skerðist ekki við yfirfærsluna frá ríki til sveitarfélaga.``

Ég vil minna á að í lögum sem voru samþykkt ekki alls fyrir löngu um húsaleigubætur er kveðið á um í 1. gr. að hagur leigjenda eigi að batna með lögunum. Staðreyndin var hins vegar sú hagur leigjenda t.d. í Reykjavík batnaði ekki. Hann stóð í stað hjá ýmsum eftir að Leigjendasamtökin og aðrir aðilar höfðu sett þrýsting á borgaryfirvöld að skerða ekki kjör þessa fólks. Það er nú staðreynd málsins og þannig er það í ýmsum öðrum lagabálkum að þar er að finna góðan ásetning af svipuðum toga en síðan verður framkvæmdin þvert á það.

Ég sé að hæstv. félmrh. hristir höfuðið og nú langar mig til að kanna viðhorf hans. Hann segir að ekki standi til að ráðast í stórkostlega einkavæðingu á þessu sviði. Þetta segir hann. Nú hafa menn gagnrýnt það sem við teljum sum vera stórkostlega einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar og velferðarþjónustunnar. Ég vísa þar í einkavæðingu í skólakerfinu, Iðnskólann í Hafnarfirði, og ég vísa til útboðs á öldrunarþjónustu á Reykjavíkursvæðinu þar sem m.a. fyrirtækinu Securitas hefur verið fengið það verkefni að reisa og reka elliheimili þótt í ljós hafi komið að það sé miklu óhagkvæmara og dýrara fyrir skattborgara en að fá Hrafnistu það verkefni í hendur sem hafði einnig sett fram tilboð.

Styður hæstv. félmrh. þessar framkvæmdir, styður hann þessi verkefni? Finnst honum ekkert athugavert við framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Ef honum finnst ekkert við þetta að athuga, ekkert við einkaframkvæmd á elliheimilum eða í skólakerfinu að athuga vakna efasemdir um góðar yfirlýsingar hans í því efni sem er til umræðu.

Við skulum ekki gleyma því, áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, sem ég gjarnan vildi vekja máls á, að í bæklingi ríkisstjórnarinnar um einkaframkvæmd er sérstaklega kveðið á um að sett skuli á notendagjöld. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Leggja ber áherslu á að sem stærstur hluti tekna rekstraraðila sé fenginn með notendagjöldum.``

Þetta segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.