Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 19:21:55 (5201)

2000-03-13 19:21:55# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[19:21]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra ræddi um að tregða sveitarfélaganna til að taka við þessum málaflokki lægi ekki hjá smærri sveitarfélögunum heldur fyrst og fremst hjá stærri sveitarfélögunum. Mér finnst, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefði þá átt að skýra hvers vegna það gæti verið. Ég held að skýringin á því hljóti að vera sú, ef það er rétt sem ég hef ekki hugmynd um, að þunginn í þessum málaflokki er helst hjá stærri sveitarfélögunum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík kannski ekki síst. Við þekkjum ótal dæmi um að fólk hefur verið að flytja utan af landi hingað til Reykjavíkur m.a. til að fá þjónustu fyrir fatlaða og fötluð börn. Það er auðvitað skýringin á því að stærstu sveitarfélögin, eins og t.d. Reykjavík og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, vilja hafa tryggt að tekjustofnar fylgi með þegar verið er að flytja málaflokkinn þarna á milli. Þetta vildi ég láta koma fram.

Af því að hæstv. ráðherra nefndi húsaleigubæturnar, sem er áhugamál okkar beggja, þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji og hvað því líður að fá fram afnám á skattlagningu húsaleigubóta. Ég er alveg sannfærð um að ráðherrann er því hlynntur, ég held meira að segja að hann hafi sagt það hér í ræðustól. Ég spyr því hvort við megum vænta þess að skattlagning á húsaleigubótum verði afnumin á þessu kjörtímabili.

Eins vil ég spyrja um hvort þær breytingar sem gerðar voru áður en frv. var lagt hér fram frá því að laganefnd skilaði tillögum sínum hafi verið gerðar í samráði við samtök fatlaðra.