Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 19:25:11 (5203)

2000-03-13 19:25:11# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[19:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil láta koma fram að ég tel ákaflega mikilvægt að þetta frv., þegar það verður að lögum, verði afgreitt í góðri sátt við samtök fatlaðra og þá sem við þetta eiga að búa. Ég held að það sé nokkuð öruggt að þær breytingar sem voru gerðar á frv. frá því að laganefnd skilaði tillögum sínum hafi ekki einasta verið gerðar án þess að hafa samráð um þær við samtök fatlaðra heldur hafi þær verið gerðar í andstöðu við samtök fatlaðra. Hér er verið að draga úr skyldum sveitarfélaga t.d. varðandi leiguhúsnæði, verið er að draga úr skyldum þeirra að því er varðar forvarnastarf og verið er að ganga í berhögg við þá framtíðarstefnu sem samtök fatlaðra, t.d. Þroskahjálp, vilja sjá varðandi sólarhringsstofnanir.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að leita sátta í þessu máli núna þegar málið fer í skoðun fram á næsta þing og reyna að ná samstöðu við samtök fatlaðra að því er þetta varðar.

Varðandi húsaleigubæturnar þá veit ég að það er fyrst og fremst Sjálfstfl. sem er á móti því að afnema skattlagningu á húsaleigubótum. Það veltur auðvitað mikið á styrk hæstv. félmrh. hvort hægt sé að ná því fram að skattlagning á húsaleigubótum verði afnumin. Ég er alveg sannfærð um að við erum að tala um sérstaka og mjög góða kjarabót fyrir það fólk sem verst er statt í þjóðfélaginu. Ég hvet því hæstv. ráðherra til þess að leggja allt sitt af mörkum til að ná því fram að skattlagning á húsaleigubótum verði afnumin. Hann hefur stuðning meiri hluta í þinginu til þess að það verði gert, hann hefur stuðning fjölda félagasamtaka sem hafa ályktað í þessu máli og hann hefur stuðning verkalýðshreyfingarinnar til að ná því fram. Hvað vill ráðherrann biðja um betra en að hafa allan þennan stuðning til að ná þessu fram á móti Sjálfstfl.?