Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 13:32:43 (5205)

2000-03-14 13:32:43# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Í frv. þessu er lagt til að rýmkuð verði heimild til framsals á aflahámarki í síld samkvæmt lögum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum sem gilda til loka næstu síldarvertíðar sumarið 2000. Sú takmörkun er sett á flutning aflahámarks milli skipa að aldrei má flytja af skipi meira en sem nemur 50% af sama hlutfalli skips úr árlegum leyfilegum heildarafla og sem nam hlutfalli þess úr heildarveiði þriggja síðustu vertíða. Samkvæmt þessu ákvæði er mjög mismunandi hversu stóran hluta aflahámarks unnt er að flytja af einstökum skipum og jafnframt breytist heimild einstakra skipa til flutnings milli ára í hlutfalli við breytt hlutfall þess úr heildarveiðinni. Þannig leiðir framsal eitt árið til þess að framsalsréttur þess árið eftir skerðist.

Lagt er til að takmörkun á heimild til flutnings aflahámarks verði aflétt gagnvart þeim skipum sem stundað hafa síldveiðar á viðmiðunarárunum 1995, 1996 og 1997 og skipum sem komið hafa í þeirra stað. Hins vegar verður óheimilt að flytja aflahámark af þeim skipum sem ekki hafa stundað síldveiðar á viðmiðunarárunum eða komið í stað slíkra skipa. Ástæða þess að hér er gerður greinarmunur á er sú að samkvæmt lögunum eiga öll skip kost á veiðileyfi og aflahámarki og verði heimilt að framselja þeim skipum sem nú fyrst sækja um leyfi til síldveiða má búast við að sótt verði um leyfi fyrir mörg skip í þeim tilgangi einum að flytja af þeim aflahámark. Með þessu er hins vegar ekki þrengdur réttur nýrra skipa til að fá leyfi til síldveiða frá því sem verið hefur.

Meginrökin fyrir þessari rýmkun á framsalsrétti eru þau að í lok tveggja síðustu vertíða hefur skapast mjög erfið staða. Gildandi lög byggja á því að til endurúthlutunar aflahámarks komi sé slíkt talið nauðsynlegt til að tryggja nýtingu heildarveiðiheimildanna. Síldveiðar einstakra skipa hefjast ekki á sama tíma auk þess sem veiðar þeirra ganga misvel. Því kemur upp sú staða að þegar fyrstu skipin hafa veitt kvóta sína þá eiga önnur skip hluta kvótans óveiddan eða hafa jafnvel ekki hafið veiðar þar sem útgerðarmenn vænta að til endurúthlutunar komi sem leiði til aukningar á veiðiheimildum þeirra sem lokið hafa veiðum og skerðingar hjá þeim sem minna eða ekkert hafa fiskað. Skip sem veitt hafa kvóta sína liggja í höfn meðan beðið er eftir því hvort til endurúthlutunar komi en mikill þrýstingur skapast hjá öðrum að veiða sem mest á sem stystum tíma til að missa ekki hluta af aflaheimildum sínum í endurúthlutun.

Ráðuneytinu hefur verið mikill vandi á höndum í þessu efni þar sem það er ekki á færi þess eða annarra að vita með einhverri vissu hve lengi skipin geti stundað veiðar áður en síldin hverfur af þeim miðum sem íslensk skip geta sótt. Þessi staða hefur leitt til mikillar keppni í upphafi síldarvertíðar og að dómi margra m.a. leitt til þess að ekkert af þessum síldarstofni hefur nýst til manneldisvinnslu. Með því að auka heimild til flutnings aflahámarks eins og hér er lagt til verður að telja að skynsamleg nýting síldarkvótans verði betur tryggð en með þeirri skipan sem verið hefur tvær síðustu vertíðir. Ef til endurúthlutunar kæmi mundi hún líklega aðeins taka til ónýttra aflaheimilda nýrra skipa en samkvæmt lögunum má að hámarki úthluta þeim 10% af heildarveiðiheimildunum. Tvö síðustu ár hefur þeim verið úthlutað milli 1 og 2% af heildarveiðiheimildunum í upphafi en þau hafa ekki nýtt þær heimildir.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjútvn.