Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:07:29 (5210)

2000-03-14 14:07:29# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SighB
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum hafa nokkra sérstöðu á Íslandi umfram aðrar veiðar eins og fram hefur komið í máli manna. Þegar þær veiðar hófust að nýju voru um 30 ár liðin síðan veiðar úr þessum fiskstofni höfðu verið stundaðar af Íslendingum. Flest ef ekki öll þau fyrirtæki og skip sem höfðu stundað þær veiðar voru ekki lengur að veiðum og því ekki um að ræða neinn hefðbundinn rétt til þeirra veiða. Veiðirétturinn skapaðist þess vegna ekki af veiðireynslu heldur einfaldlega af samningum fulltrúa almannavaldsins á Íslandi, þ.e. ríkisstjórnarinnar, við aðra ríkisstjórn, aðrar ríkisstjórnir öllu heldur. Þannig urðu verðmætin til fyrir tilverknað samnings á milli ríkisstjórna, á milli handhafa framkvæmdarvalds tiltekinna ríkja. Áður en sá gerningur fór fram var ekki um neinar veiðar að ræða og ekki um nein verðmæti að ræða.

Um svipað leyti og þetta gerðist urðu til annars konar verðmæti með sams konar gerningi íslensku ríkisstjórnarinnar gagnvart öðrum ríkisstjórnum. Þá samdi íslenska ríkisstjórnin við aðrar ríkisstjórnir um að heimilað skyldi að flytja inn ákveðið magn landbúnaðarafurða framleiddra erlendis til Íslands. Þá höfðu erlendar landbúnaðarafurðir af þeim toga ekki verið fluttar til Íslands í 30 ár eða jafnvel lengur. Því var ekki heldur um að ræða neina reynslu í þeim efnum um að íslenskur aðili hefði reynslu af því að eiga viðskipti á grundvelli þessara verðmæta eða stunda atvinnustarfsemi á grundvelli þessara verðmæta. Þarna var sem sé, herra forseti, um að ræða sams konar gerning sömu ríkisstjórnar á svipuðum tíma. Gerning sem skapaði ákveðin verðmæti fyrir þá aðila sem stunduðu viðkomandi atvinnustarfsemi.

Hæstv. ríkisstjórn tók þá ákvörðun réttilega varðandi tollkvóta á innfluttum landbúnaðarafurðum að þarna væri um að ræða verðmæti sem ríkisstjórnin hefði skapað. Ekki væri um að ræða neinn hefðarrétt á hvað varðaði meðferð mála og því skyldi bjóða þessi verðmæti eða ígildi þeirra út, þ.e. öllum sem leyfi hafa til verslunarreksturs á Íslandi væri gefinn kostur á því að bjóða í að nýta sér þau verðmæti sem ríkisstjórnin hafði skapað í samningunum við aðrar ríkisstjórnir.

Ég held að það hafi verið hæstv. þáv. landbrh., sem nú situr í forsæti Alþingis, sem tók þessa skynsamlegu ákvörðun. Síðan hefur henni verið framfylgt þannig að þeim verðmætum sem þarna voru sköpuð er ráðstafað þannig að öllum sem hafa rétt til að stunda verslun á Íslandi er gefinn kostur á að bjóða í þessa tollkvóta, þessi verðmæti og hæstbjóðandi hlýtur. Það var hins vegar ekki gert með þau verðmæti sem ríkisstjórnin skapaði varðandi samninga við aðrar ríkisstjórnir varðandi veiðar í norsk-íslenska síldarstofninn. Þar var talið rétt að gefa tilteknum útgerðarmönnum réttinn til að nýta sér niðurstöður þessara samninga, afhenda þeim hann fyrir ekki neitt. Þeir máttu síðan selja hann hver öðrum eða leigja og fénýta sér hann með þeim hætti, þ.e. ef þeir ekki vildu fénýta sér þennan rétt sjálfir, gátu þeir fénýtt sér hann með því að selja hann eða leigja hann öðrum.

Mig langar að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvaða ástæður eru fyrir því að tekin er ákvörðun um að þessum verðmætum sé ráðstafað með öðrum hætti en þeim verðmætum sem ég gerði að umtalsefni áðan og fólust í samningi íslensku ríkisstjórnarinnar við aðrar ríkisstjórnir erlendra ríkja um innflutning á takmörkuðu magni á erlendum landbúnaðarafurðum sem eru líka verðmæti af þeim toga sem sköpuð eru í samningum ríkisins eða ríkisvaldsins við ríkisstjórnir annarra ríkja?

Virðulegi forseti. Engin rök eru fyrir öðru en því að þegar teknar eru ákvarðanir af þessum toga séu ákvarðanirnar í þeim anda að hvorki sé verið að skerða atvinnufrelsi manna né jafnræði jafnrétthárra einstaklinga til að nýta sér þau atvinnutækifæri eða viðskiptatækifæri sem slíku fylgja. Eins og kom fram hjá hv. þm. Svanfríði Jóhannesdóttur, sem talaði hér áðan, Jónasdóttur --- þetta er kannski fyrir áhrif frá hæstv. forseta sem situr fyrir aftan mig að mér urðu á mismæli en ég leiðrétti mig eins og hann --- en við fluttum á sínum tíma brtt. við frv. um veiðar utan fiskveiðilandhelgi Íslands einmitt um þetta efni og hv. þm. hefur boðað það fyrir hönd þingmanna Samfylkingarinnar að sambærileg brtt. verði flutt við afgreiðslu málsins.

(Forseti (HBl): Forseti hefur tekið eftir að hv. þm. tekur hann sér til fyrirmyndar og er það til eftirbreytni eftirleiðis.)